Nautakjötsverð á uppleið
Verð á nautakjöti hefur hækkað töluvert á síðustu 12 mánuðum eða um 15-20%. Í dag tekur gildi hækkun á verði til bænda hjá bæði Sláturfélagi Suðurlands (SS) og sláturhúsinu Hellu (SH). SS hækkar allt ungneytakjöt um 3% en SH hækkar ungneyta- og kýrkjöt um 4-6%.
Haft er eftir Baldri H. Benjamínssyni, framkvæmdastjóra LK, í Morgunblaðinu í dag að við framleiðum ekki eins mikið og æskilegt væri og að sláturleyfishafar séu farnir að hringja í bændur og spyrjast fyrir um hvað þeir eigi af gripum. Hann segir þróunina ekki einskorðast við Ísland og að nautakjötsverð erlendis hafi hækkað talsvert mikið. Nefna má að hjá stærsta nautgripasláturhúsi í Danmörku hefur verð hækkað um 12-13% á árinu.
Síðustu 12 mánuði hefur framleiðslan verið 3.800 tonn og það kjöt hefur allt selst. Markaðurinn gæti vel tekið við nokkurra prósenta aukningu. Þessari aukningu mætti ná með aukinni notkun á holdasæði en hún hefur verið í algjöru lágmarki síðustu ár. Raunin er sú að of fáir nautakjötsframleiðendur notfæra sér þá miklu vaxtargetu sem þau erlendu holdakyn sem í boði eru hafa umfram íslenska gripi.