Ný matvælalöggjöf og breytingar gagnvart bændum

Þann 1. nóvember sl. kom til framkvæmda á Íslandi sá hluti nýrrar matvælalöggjafar á Evrópska efnahagssvæðinu sem snýr að bændum. Þessi hluti snýr þannig að þeim sem rækta fóður, framleiða dýraafurðir og dreifa, þeirra sem rækta eða nota grænmeti, korn eða gras til dreifingar, manneldis eða fóðurgerðar.
Ákvæði fyrir fóður, fisk og almenn matvæli tóku gildi þann 1. mars 2010, en nauðsynlegt þótti að seinka innleiðingu á þeim hluta sem snýr að bændum til að hægt væri fyrir fyrirtæki að koma á nauðsynlegum úrbótum og fyrir opinbera aðila að tryggja hlutlaust eftirlit. Matvælastofnun (MAST) stóð fyrir fræðslufundi fyrir bændur þann 1. nóvember sl. á Hvanneyri þar sem þeir voru upplýstir um þau atriði löggjafarinnar sem helst munu hafa áhrif á þeirra störf.

Á fundinum kom fram að almennt miðaði löggjöfin að því að tryggja rekjanleika matvæla og fóðurs og að afurðir á markaði uppfylli gæða- og heilnæmiskröfur. Henni sé ætlað að ná til allra þátta matvælaframleiðslunnar, frá haga til maga.


Í nýrri löggjöf eru bændur skilgreindir sem fóðurfyrirtæki (þeir sem afla og nota fóður) og matvælafyrirtæki (þeir sem stunda búfjáreldi, matjurtaræktun og heimaframleiðslu/-sölu). Samhliða þessum skilgreiningum er fyrirtækjunum lagðar ýmsar skyldur á herðar. Þau bera m.a. ábyrgð á að ákvæði löggjafar um starfsemina séu uppfyllt, að starfsleyfi/skráning liggi fyrir áður en starfsemi hefst, að kröfur um hollustuhætti og innra eftirlit sé uppfyllt, á rekjanleika afurða, að einungis örugg matvæli fari á markað og að hættuleg matvæli séu innkölluð.

Stjórnvöldum (MAST) er samkvæmt löggjöfinni falið að veita starfsleyfi, halda skrá yfir bændur og býli og hafa eftirlit með að bændur vinni samkvæmt ákvæðum löggjafarinnar. Það er svo Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sem gerir úttektir á starfi MAST.


Sjá nánar:
Breytingar á matvæla- og fóðurlöggjöf – á vef Matvælastofnunar


back to top