Nýir hrútar á sæðingastöðvunum 2010

Á næstu dögum mun birtast hér á vefnum, í sauðfjárræktarhlutanum undir „Hrútaskrá“, kynning á nýjum hrútum á sæðingastöðvunum sumarið 2010. Á síðustu árum hafa slíkar kynningar verið viðhafðar til að gefa forsmekk að hrútaskrá haustsins.
Hópur nýju hrútanna frá sumrinu telur níu gripi (Því miður drapst einn hrútur eftir að þeir voru komnir í einangrunargirðingarnar). Þessir hrútar eru sóttir vítt og breitt um landið af þeim svæðum sem stöðvarnar hafa leyfi til að sækja slíka gripi, en nær helmingur landsins er bannsvæði í þeim efnum. Birt er mynd af hrútnum og rétt að vekja athygli á því að myndirnar úr annarri einangrunargirðingunni eru teknar það snemma að ullarvöxtur hrútanna er varla kominn nægjanlega vel í gang og þarf að skoða myndirnar með hliðsjón af því. Síðan er örstutt umfjöllun í texta um gripinn. Að lokum er í sérstakt skjal hægt að sækja drög að ættarskrá hrútsins, sem er að vísu ákaflega misítarleg fyrir einstaka gripi. Hrútarnir munu birtast dag frá degi í stafrófsröð.

Síðar í haust mun bætast við dágóður hópur af hrútum til viðbótar sem stöðvarnar sækja í þær sérstöku afkvæmarannsóknir sem nú er verið að vinna vegna stöðvanna. Vonandi verður mögulegt að hefja kynningu þeirra hrúta fljótlega eftir að þessari kynningu líkur.


Fyrsti hrúturinn er þegar kominn inn á sauðfjárræktarhlutann en þar er Bátur frá Vogum 2 í Mývatnssveit kynntur til leiks.

Nýir hrútar 2010


back to top