Nýtt kvikuskot undir Eyjafjallajökli

Jarðskjálftamælingar sýna nú nýtt kvikuskot undir Eyjafjallajökli. Á vef Veðurstofunnar er greint frá því að síðan á mánudag hafi verið aukin skjálftavirkni undir Eyjafjallajökli. Nákvæm staðsetning skjálftanna sýni að þeir fyrstu verði djúpt í jörðu, á um 23 km dýpi, en færist síðan upp. Þetta bendi að öllum líkindum til þess að ný kvika sé að þrýstast upp neðst í kvikurásinni. Hún ýti við ofanáliggjandi kviku þannig að þrýstingsbreytingin færist upp að yfirborðið. Því megi búast við að gosið haldi áfram af fullum krafti næstu daga.

Þá segir að verulegar breytingar hafi orðið á færslu GPS-stöðva umhverfis Eyjafjallajökul síðustu tvo sólarhringa. Á stöðvum BAS2 og STE2, sem eru rétt norðan jökulsins, megi nú á ný greina færslu til norðurs. Sunnan jökulsins færist THEY (Þorvaldseyri) nú til vesturs, og stöð FIM2, sem sé nokkru austar, sýni færslu til austurs.


Dreifing skjálftavirkni í kvikurásinni gefur jafnframt vísbendingar um staðsetningu kvikuhólfsins sem gosið hefur úr síðan 13. apríl, en talið er að það sé á um 3-5 km dýpi, þar sem skjálftar hafa ekki orðið.


back to top