Nýtt kynbótamat og ný reynd naut í notkun

Á vef Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins rml.is er eftirfarandi frétt af reyndum nautum í notkun, þess má geta að þessi naut eru þegar komin í dreifingu hjá frjótæknum.  „Fagráð í nautgriparækt fundaði í gær í kjölfar þess að keyrt var nýtt kynbótamat núna í maí. Ákveðið var að hefja dreifingu á sæði úr þrem nýjum reyndum nautum.  Þau eru Gustur 09003 frá Hóli í Sæmundarhlíð sem kemur til notkunar sem nautsfaðir, Foss 09042 frá Fossi í Hrunamannahreppi og Gæi 09047 frá Svertingsstöðum 2 í Eyjafirði. Búið er að uppfæra kynbótamat og upplýsingar um reynd naut á vef nautskrárinnar, nautaskra.net.
Þá var ákveðið að nautsfeður til notkunar næstu mánuði verði Keipur 07054, Flekkur 08029, Bambi 08049 og Gustur 09003. Áfram verða teknir nautkálfar á stöð undan Sandi 07014, Toppi 07046, Bláma 07058, Laufási 08003 og Kletti 08030.“
„Rétt er að taka fram að sú breyting varð á kynbótamatinu núna að viðmiðunarárgangurinn var færður upp um 5 ár þannig að kynbótamatið lækkar án þess að kynbótagildi gripanna hafi í raun minnkað. Vegna þessa ákvað fagráð að mörk fyrir kýr á nautsmæðraskrá verði 106 í heildareinkunn í stað 107 áður.
Stefnt er að útgáfu nýrrar nautaskrár á prentuðu formi í júní og er undirbúningur að úgáfu hennar þegar hafinn.“


back to top