Of heitt í íslenskum fjósum

Um þessar mundir eru kúabændur víðast hvar að taka kýrnar sínar inn og hefja vetrarfóðrun. Því er ekki úr vegi að rifja upp nokkur heilræði sem Jan Brögger Rasmussen, yfirmaður byggingasviðs Dönsku ráðgjafaþjónustunnar (Landbrugets Rådgivningscenter) benti okkur á í vor þegar hann var hér á ferð. Bændur eru hvattir til að skoða hjá sér ástandið með gagnrýnum augum…Númer eitt:
Bæta þarf loftræstingu íslenskra fjósa verulega. Í nýjum fjósum á Íslandi sem og í Danmörku er víðast hvar náttúrleg loftræsting, þ.e. engar viftur sem hreyfa loftið heldur er reynt að spila á eðlisfræðilega hegðun lofts sem stýrist af hita- og rakastigi. Náttúrleg loftræsting er ekki bara opnanlegur loftgluggi heldur verður að vera einhver hreyfing á loftinu sem þýðir að heita og raka loftið sem stígur upp og fer út um loftgluggan þarf að draga í fjósið kaldara og þurrara loft inn um þar til gerð inntaksop (dyr eru ekki inntaksop!)

Í allra nýjustu fjósunum eru auk þess víða komnar verðurstöðvar sem sjá um að stýra þakglugganum og inntaksopunum eftir hitastiginu í fjósinu. Veðurstöðin skal vera stillt á bilinu 0-3°C, þ.e. að eina atriðið sem þarf að uppfylla er að fjósið sé frostfrítt. Hafa þarf í huga við loftræstingu fjósa að kýr hafa heitara blóð en maðurinn…

Númer tvö:
Halda þarf básunum og göngusvæði kúnna hreinu! Sú rútínuvinna sem sparast kann við mjaltir við notkun mjaltaþjóna þarf að breytast í rútínuvinnu við þrif. Bása þarf að skafa eftir þörfum dag hvern! Nota þarf undirburð og danska ráðleggingin er 500 g/kú/dag sé talað við ráðunaut þar í landi, 700 g/kú/dag sé talað við dýralækni.


Nota þarf þar til gerðan spæni – hitameðhöndlaðan og bakteríufrían
– ekki spæni úr næsta trésmíðaverkstæði.



Danskurinn lagði mikla áherslu á að líta yrði á undirburð sem þennan sem fastan rekstrarkostnað í fjósum með mjaltaþjóna. Hvað varðar göngusvæðin var talað um að sköfur ofan á bitum væru bestu og þurrustu gólfin en ef um heil gólf er að ræða þarf að vera um 2% vatnshalli inn að miðju og þar sé dren. Þær flórsköfur sem settar eru í fjósin ættu að vera með sterkum gúmmí/harðplastkanti. Hvoru tveggja til að þurrka betur göngusvæðið en ekki síður til að gólfin verði ekki of hál eins og þau munu verða fyrr en seinna þegar járnið í sköfunum nuddast sífellt við steypuna.


Niðurstaðan ef lögð er áhersla á að uppfylla þessi tvö atriði:
Hreinar kýr sem auðveldar eru í þrifum, hvort sem er fyrir mjaltamann eða mjaltaróbót…


back to top