Óheimill flutningur sauðfjár kærður til lögreglu
Nýlega fannst fé sem flutt hafði verið úr Rangárvallahólfi yfir í Hreppa-, Skeiða- og Flóahólf ásamt fleira fé sem flutt hafði verið milli bæja innan síðarnefnds hólfs að því er fram kemur á heimasíðu Matvælastofnunar. Alls var um 19 kindur að ræða sem þrír eigendur voru að. Með flutningum sem þessum er unnið gegn útrýmingu á riðu. Fénu hefur verið fargað án greiðslu bóta en bætur eru ekki greiddar vegna förgunar þegar lög eða reglugerðir um dýrasjúkdóma eru brotin. Málið verður jafnframt kært til lögreglu.
Sjálfsagt er að taka undir með Matvælastofnun í þessu máli og biðja umráðamenn búfjár að virða þau lög og reglur sem í gildi eru varðandi takmarkanir á flutningum lifandi búfjár. Gildandi reglur eru ekki settar að ástæðulausu.
Til varnar útbreiðslu á riðu og garnaveiki eru flutningar á sauðfé takmörkunum háðir og m.a. bannað að flytja fé yfir varnarlínur sbr. 25. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Varnarlínur eru ákveðnar með reglugerð og eru afmarkaðar með girðingum eða náttúrulegum hindrunum fyrir sauðfé og þannig verða til tiltekin varnarhólf.
Innan varnarhólfa þar sem riða hefur verið landlæg undanfarin 20 ár eru flutningar milli hjarða (bæja) óheimilir sbr. 5. gr. reglugerðar um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar. Þetta á t.d. við um Hreppa-, Skeiða- og Flóahólf, Biskupstungnahólf, Landnámshólf, Miðfjarðarhólf, Vatnsneshólf, Húnahólf, Skagahólf, Tröllaskagahólf, Skjálfandahólf, Héraðshólf, Austfjarðahólf, Suðurfjarðahólf og Norðausturhólf sunnan Smjörfjalla. Smithætta er mest í fjárhúsum og felst því mikil áhætta í að flytja fé á milli bæja á þessum svæðum.
Hvort sem um er að ræða stóra fjáreigendur eða smáa, eina kind eða margar, ber að virða reglurnar svo árangur náist í baráttunni gegn riðu og garnaveiki. Tillitsleysi eins bónda eða áhugamanns með nokkrar kindur getur eyðilagt fyrir öllum öðrum bændum í sama varnarhólfi. Allir sauðfjárbændur og ekki síður þeir sem hafa nokkrar kindur sér til gamans þurfa að virða lög og reglur um flutning búfjár innan og milli varnarhólfa.
Rétt er að taka fram að meðfylgjandi mynd tengist fréttinni ekki.