Ólög um héraðsdýralækna

Í Morgunblaðinu í gær (16. ágúst) birtist grein eftir Gunnar Örn Guðmundsson, héraðsdýralækni í Gullbringu- og Kjósarsýslu með sömu yfirskrift og hér er gert. Þar fjallar hann um hið margumrædda Matvælafrumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi og hvaða áhrif óbreytt frumvarp myndi hafa á dýralæknaþjónustu í landinu. Hér á eftir fer pistill Gunnars orðréttur þar sem grein hans útskýrir nokkuð vel í hverju mótmæli dýralækna liggja í þeirri von að bændur átti sig betur á þeirri stöðu sem yrði uppi.

„Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga, svokölluð matvælalög, sem mun leggja dýralæknakerfið í landinu í núverandi mynd í rúst. Kerfi sem hefur að mati undirritaðs þjónað bændum og dýraeigendum vel, verið ódýrt og hnökralaust í framkvæmd og leitt til þess að fengist hafa ungir dýralæknar til starfa á landsbyggðinni.
 
Til að útskýra kerfið eins og það er í dag, þá eru starfandi alls 15 héraðsdýralæknar á landinu og eru þrír þeirra þannig ráðnir að þeir skuli ekki sinna almennri dýralæknisþjónustu, en þeir eru í Reykjavík, á Selfossi og Akureyri, en hinir 12 héraðsdýralæknarnir sinna samkvæmt lögum, samhliða eftirlitsstörfum, almennum dýralæknastörfum, hver í sínu umdæmi. Hugsunin við þessa skipan mála, sem komið var á með nýjum lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, sem komu til framkvæmda 1. desember 1999, var að á þéttbýlustu svæðum landsins væri grundvöllur fyrir sjálfstætt starfandi dýralækna að hasla sér völl, þar sem þeir ættu ekki í samkeppni við dýralækna á launum frá ríkinu og einnig að þá væri unnt að sinna eftirlitsskyldu með framleiðslubúum og sláturhúsum á þéttbýlustu landbúnaðarsvæðum landsins, án þess að það bryti í bága við stjórnsýsluhætti. Þessi skipan mála hefur reynst vel og hafa sjálfstætt starfandi dýralæknar komið sér fyrir með góðum árangri á Stór-Reykjavíkursvæðinu, á Suðurlandsundirlendinu austur undir Mýrdal og í Eyjafirði og Skagafirði. Héraðsdýralæknarnir á þessum svæðum hafa sinnt eftirlitsþáttum, bæði til sveita og í sláturhúsum ásamt eftirlitsdýralæknum, sem starfa undir þeirra stjórn.

En hvernig yrði málum komið fyrir samkvæmt nýja matvælafrumvarpinu? Þá yrði í fyrsta lagi öllum héraðsdýralæknum landsins sagt upp störfum og auglýstar nýjar stöður héraðsdýralækna, sex talsins fyrir allt landið, í stað 15 líkt og nú er. Þessir sex héraðsdýralæknar ættu allir að sinna eingöngu eftirlitsstörfum, þeim væri ekki heimilt að stunda almennar dýralækningar. Hugmyndin er að ráða sums staðar eftirlitsdýralækna undir þeirra stjórn í hlutastörf, eftir því hve stór eftirlitsþátturin væri á hverju svæði. Hugmyndin er að gera héraðsdýralæknana eingöngu að eftirlitsaðilum.

Hver á þá að sinna almennum dýralækningum á landsbyggðinni? Jú, hugmynd ráðamanna er að það verði sjálfstætt starfandi dýralæknar. Þetta hljómar kannski vel í eyru einkavæðingarsinna og jafnvel þeirra sem ekki þekkja til mála. En málið er ekki svona einfalt. Aðstæður eru þannig á Íslandi, að utan umdæma hinna þriggja núverandi eftirlitshéraðsdýralækna er ekki lífvænlegt fyrir sjálfstætt starfandi dýralækna. Þar kemur fyrst til, að fjöldi dýra er ekki nógur, strjálbýli er of mikið og fjarlægðir of miklar. Þetta kann að hljóma undarlega fyrir suma, en þegar betur er að gáð kemur í ljós að fæst af þessum núverandi 12 héraðsdýralæknaumdæmum hafa fleiri en 20 kúabú. Menn segja kannski að á þessum svæðum sé sums staðar margt sauðfjár og hrossa, en bændur og dýralæknar sem til þekkja vita að af þeim hefur dýralæknir til sveita litlar tekjur.

Hver er þá niðurstaðan ef sá hluti frumvarpsins sem varðar dýralæknaþjónustu verður samþykktur óbreyttur? Dýralæknar munu flytja burt úr héruðunum og leita sér vinnu annars staðar, ungir dýralæknar munu ekki koma til starfa vegna þess að þeir munu ekki geta framfleytt sér og fjölskyldu sinni. Þjónusta við bændur og dýraeigendur mun snarversna og jafnvel verða engin á sumum svæðum. Ég skora því á þingmenn að hafna þessum breytingum, þær munu skaða íslenskan landbúnað og byggðir landsins. Ég skora líka á Bændasamtök Íslands að láta í sér heyra varðandi þetta mál, þetta er vissulega líka hagsmunamál fyrir bændur.

Ég trúi ekki að Evrópubandalagið muni ekki hafa skilning á strjálbýli landsins, sem allt liggur norðan 64. breiddargráðu, en það hefur gert undanþágur um landbúnaðarmál á svæðum norðan 62. breiddargráðu í Svíþjóð og Finnlandi.

Það er reyndar stórfurðulegt að samningamenn Íslands í umræðum um matvælalöggjöfina hafi ekki einu sinni reynt að fara fram á undanþágur varðandi þessi atriði. Þeir hafa verið spurðir af hverju þeir leituðu ekki eftir undanþágum. Svörin voru að það hefði verið óviðeigandi! Þurfum við Íslendingar alltaf að innleiða Evrópulöggjöfina alls kostar óbreytta þó það sé okkur í óhag? Ég held við þurfum ekki að vera kaþólskari en páfinn“.

Gunnar Örn Guðmundsson
Héraðsdýralæknir í Gullbringu- og Kjósarsýslu
Morgunblaðið 16. ágúst 2009, bls. 33


back to top