Ráðherra vill auka stuðning við kornrækt
Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur kynnt í ríkisstjórn skýrslu um eflingu kornræktar. Ráðherra lagði þar til að stuðningur hins opinbera við kornrækt hér á landi yrði sambærilegur því sem er í Danmörku.
Kornrækt á Íslandi nemur nú um 15 þúsund tonnum og hefur farið ört vaxandi síðustu ár. Miðað við núverandi rekstrarforsendur er þó talið að hægja muni á þessari aukningu. En það er mat skýrsluhöfunda að með þreföldun íslenskrar kornræktar megi spara þjóðarbúinu 200 milljónir í gjaldeyri og fullnægja byggþörf í íslenskum landbúnaði. Þar með má efla hagvarnir og fæðuöryggi þjóðarinnar, stuðla að stöðugra rekstrarumhverfi í landbúnaði og auka fjölbreytni í atvinnulífi hinna dreifðu byggða.
Styrkir til kornræktar á Íslandi eru í dag aðeins brot af því sem tíðkast í nágrannalöndunum. Þannig eru þeir þrefalt hærri í Danmörku en hér á landi og ef mið er tekið af Finnlandi er munurinn sexfaldur.
Í minnisblaði ráðherra kemur fram að á næstunni verði hafnar viðræður við Bændasamtök Íslands um mögulegar breytingar á búvörusamningi sem miði að auknum styrkjum til kornræktar. Sömuleiðis verður ráðist í úttekt á stöðu fæðuöryggis í landinu.
Tillögur starfshóps um eflingu kornræktar á Íslandi