Ráðstefna á Hólum um upphaf landgræðslu

Í tilefni eitt hundrað ára sögu landgræðslu á Íslandi var haldið málþing á Hólum þar sem Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri fjallaði um upphaf sandgræðslu hérlendis og þá frumkvöðla sem stóðu að því starfi.

Í upphafi fundar var undirritaður samstarfssamningur milli Landgræðslu Íslands og Hólaskóla, um héraðsmiðstöð landgræðslunnar á Norðvesturlandi. Sagði Skúli Skúlason, rektor Hólaskóla, að hér með væri formfest ágætt samstarf skólans og Landgræðslunnar, sem vissulega hefði áður verið komið á með handsali, en nú formlega staðfest.

Frumkvöðlar til varnar
Sveinn Runólfsson fjallaði um gróðurfar á landinu til forna, um hnignun gróðurs og rýrnun landgæða, sem hann taldi að hefði náð hámarki á síðari hluta nítjándu aldar, en þá einmitt risu upp frumkvöðlar sem freistuðu þess að snúa vörn í sókn. Benti Sveinn á starf skáldsins og stjórnmálamannsins Hannesar Hafstein, sem meðal annars fékk danska ráðgjafa til að gera tillögur um skógrækt og uppgræðslu sanda, og í framhaldi þess fékkst frumvarp til laga um þessi mál samþykkt hinn 22. nóvember 1907.

Sagði Sveinn að þá þegar hefði hafist mjög gott og öflugt samstarf við Búnaðarfélag Íslands sem enn stæði.

Þá drap hann á störf þeirra manna sem mótuðu landgræðsluna fyrstu árin, en þar voru í fararbroddi Gunnlaugur Kristmundsson og svo bræðurnir Runólfur og Páll Sveinssynir. Sagði Sveinn að mjög afgerandi árangur hefði náðst í að stöðva sandfok og gróðureyðingu í tíð Gunnlaugs, en þeir Runólfur og Páll hófu störf í Gunnarsholti þar sem núverandi aðsetur landgræðslunnar er, og var Páll frumkvöðull að áburðardreifingu með flugvélum, sem staðið hefur fram á síðustu ár.

Þarf lög um sjálfbæra nýtingu
Það sem hæst bæri hjá Landgræðslunni þessi árin, sagði Sveinn vera samstarfsverkefni við 650 bændur víðsvegar um landið, sem ber yfirskriftina Bændur græða landið og gengi það verkefni mjög vel og nú á þessu ári sagði hann í fyrsta sinn grætt upp meira land en það sem yrði örfoka og því hefði náðst sá merki áfangi að snúa þeirri óheillaþróun við að sífellt gengi á gróðurlendið.

Sveinn Runólfsson drap á fjölmargt fleira í fróðlegu erindi sínu, meðal annars fjárveitingar til málaflokksins á liðnum hundrað árum, reiknað til núvirðis, útflutning þekkingar við landgræðslu, val á landi til skógræktar svo eitthvað sé nefnt. Þá taldi hann mikla þörf á heildrænni sýn á forgangsröðun verkefna og nefndi í því tilviki sjálfbæran landbúnað, endurheimt vistkerfa, aðgengi lands vegna aukinna lífsgæða landsmanna, ásamt samvinnu við skóla og ýmis félagasamtök um þessi mál.

Sagði hann mikla þörf á löggjöf um sjálfbæra landnýtingu, þannig að landeigendur verði sannir vörslumenn landsins.

Í HNOTSKURN


  • Landgræðsla ríkisins miðar aldur sinn við setningu laga um „skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands“ frá árinu 1907 en þá var Sandgræðsla Íslands stofnuð.
  • Landgræðslan er ein elsta stofnun sinnar tegundar í heiminum.


back to top