Rafræn skráning á tjóni vegna álfta og gæsa

Nú er búið að opna fyrir skráningu á tjóni vegna álfta og gæsa á ræktunarlandi.  Þetta er gert á Bændatorginu og eru bændur hvattir til að skrá það tjón sem þeir verða fyrir. Nú er búið að útbúa rafrænt skráningarform fyrir bændur í Bændatorginu, í þeim tilgangi að halda utan um ágang og tjón af völdum gæsa og álfta á ræktunarlandi. Upplýsingarnar verða skráðar í gagnagrunn, sem nýtast mun við frekari úrvinnslu og til ákvörðunartöku fyrir stjórnvöld, sem tekur ákvörðun um framhaldið. Verkefnið skilar ekki árangri nema bændur taki þátt og skrái allt skilmerkilega.  

Aðeins er hægt að skrá tjón á spildum sem hafa rafrænt túnkort tengt Jörð.is.  Hægt er að panta túnkort hjá Búnaðarsambandi Suðurlands með því að senda tölvupóst til Höllu Kjartansdóttur hk@bssl.is.

Skráningarþættir verða auk skráningar á spildum þar sem tjón hefur orðið á: umfang tjóns, tegundir fugla, tímabil sem tjón varð á, forvarnir sem beitt var og heildarkostnaður við forvarnir búsins (útlagður kostnaður, eknir km. og fjöldi vinnustunda). Þá eru bændur hvattir til að taka ljósmyndir af tjóni, sem geta fylgt tjónaskýrslu í Bændatorginu.

Frétt í Bændablaðinu má lesa hér á bbl.is


back to top