Raftholt ræktunarbú Rangárvallasýslu 2012
Dagur sauðkindarinnar var haldinn laugardaginn 19. október á Hvolsvelli, af Félagi sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu. Þetta var í 6. sinn sem dagurinn er haldinn en þangað koma efstu hrútar úr sýningum í hverri sveit milli Þjórsár og Markarfljóts og fengu nýja dóma. Veitt voru verðlaun fyrir efstu hrútana í hverjum flokki og Raftholt í Holtum valið ræktunarbú ársins 2012, meðfylgjandi mynd er af Hermanni Sigurjónssyni bónda með verðlaunin.
Á vefnum dfs.is er eftirfarandi umfjöllun um daginn:
Efstu lambhrútar urðu hrútar frá Kaldbak, Butru og Hólmum. Stigagjöfin var eftirfarandi: Nr. 392 frá Kaldbak með 37,5 stig fyrir BML og 87,5 heildarstig. (F: Arður Kaldbak). Nr. 6371 frá Butru með 37 stig fyrir BML og 88 heildarstig. (F: Spíri Butru). Nr. 23 frá Hólmum með 37 stig fyrir BML og 87.5 heildarstig. (F: Borði Hesti).
Af veturgömlum hrútum urðu efstir hrútar frá Kálfholti, Hemlu og Austvaðsholti. Stigagjöfin var eftirfarandi: 12-515 Svanur frá Kálfholti með 37 stig BML og 89 heildarstig. (F: Bjarmi Lyngholti). 12-354 Reykur frá Hemlu með 37 stig BML og 88 heildarstig. (F: Reynir Skjaldfönn). 12-082 Geiri frá Austvaðsholti með 36,5 BML og 87 heildarstig. (F: Barði Austvaðsholti).
Efstu gimbrar voru frá Teigi 1, Hlíðarendakoti og Álfhólum. Stigagjöf var eftirfarandi:. Nr. 454 frá Teigi 1 með 9,5 fyrir frampart 19 læri. Nr. 420 frá Hlíðarendakoti með 9,5 fyrir frampart 19 læri. Nr. 35 frá Álfhólum með 9,5 fyrir frampart 18,5 læri.
Gestir völdu litfegursta lambið og var valin móhöttótt, flekkótt gimbur frá Skíðbakka. Verðlaun voru veitt fyrir 5 vetra ær sem standa efstar í kynbótamati í sýslunni. Efstu 5 ærnar voru frá Skarði og Skarðshlíð. Efsta ærin var 08-205 frá Skarðshlíð með 118,5 stig. Veitt voru verðlaun fyrir þyngsta dilk úr sýslunni lagðan inn hjá SS nú í haust. Hann var frá Vilborgu Hjördísi Ólafsdóttur í Skarðshlíð og vóg 29,7 kg. Þá var útnefnt ræktunarbú Rangárvallasýslu 2012, Raftholt í Holtum.
Styrktaraðilar sýningarinnar voru Arion banki, SS sem gaf gestum kjötsúpu og Ítalíulæri fyrir þyngsta dilkinn. Aurasel og Fóðurblandan lánuðu grindur. Verðlaunagripir voru útskornir af Ragnhildi Magnúsdóttur í Gígjarhólskoti og mynd máluð af Gunnhildi Jónsdóttur Berjanesi. Í lokin voru boðin upp 3 lömb sem voru gefin til að standa undir kostnaði og einnig einn forystuhrútur. Björk frá Selsundi kom með rokkinn og leyfði gestum að spreyta sig á spunalistinni.