Rannsaka þarf hví ær láta lömbum
Þörf er á viðamikilli rannsókn þar sem sauðfjárbændur og Matvælastofnun leggjast á eitt um að komast að því hvað veldur því að ungar ær láta lömbum. Þetta er mat Halldórs Runólfssonar yfirdýralæknis.
Halldór segir talsvert hafa verið rannsakað á síðasta ári hvað kunni að valda lambadauða og hversu hátt hlutfall gemlinga lætur lömbum áður en þau koma í heiminn. Einhlýt skýring hafi ekki fundist. Hann telur þó ekki um nýjan sjúkdóm að ræða.
Gunnar Björnsson bóndi á Sandfelli í Öxarfirði sagði í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins í gær að ær hafi misst þúsundir lamba sem von var á, með óútskýrðum hætti. Þetta hafi komið í ljós við ómskoðun síðustu ár.
Halldór telur fulla þörf á að taka á málinu af festu og að sauðfjárbændur og Matvælastofnun sameinist um umfangsmikið verkefni til að finna skýringuna.