Riða í Hrútafirði
Í síðustu viku var staðfest af Tilraunastöð Háskólans í meinafræði á Keldum að riða hefði greinst í einu sýni frá kind sem drapst á bæ í Hrútafirði í Vestur-Húnavatnssýslu. Á bænum eru um 300 vetrarfóðraðar kindur og óskaði bóndinn eftir að héraðsdýralæknir kæmi og rannsakaði kindina. Riða hefur ekki greinst áður í þessu varnarhólfi. Keldur hafa ennfremur staðfest að hér var um svokallað NOR 98 afbrigði af riðu að ræða – en slík tilfelli hafa komið upp áður hér á landi.
Héraðsdýralæknir hefur þegar gert nauðsynlegar varúðarráðstafanir á bænum og faraldsfræðileg úttekt er í gangi, en á þessari stundu er ekkert hægt að segja til um hvernig riðan hefur getað borist á bæinn.
Nánari upplýsingar veitir Halldór Runólfsson yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun í síma 530 4800.