Ríkisendurskoðun telur starfsemi Fóðursjóðs óþarfa
Ríkisendurskoðun telur að núverandi starfsemi Fóðursjóðs sé dæmi um óþarfa stjórnsýslu. Óverulegar tekjur renna í sjóðinn þar sem fóðurtollar hafa í reynd verið afnumdir. Að mati stofnunarinnar ber að leggja sjóðinn niður.
Fóðursjóður var stofnaður árið 1995 og heyrir undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Í hann eiga að renna tollar sem lagðir eru á annars vegar fóðurblöndur og hins vegar hráefni til fóðurgerðar sem fram fer hér á landi. Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að á undanförnum árum hafi tollar á fóður frá löndum Evrópska efnahagssvæðisins (EES) í reynd verið afnumdir. Einnig hafi tollar á hráefni til fóðurgerðar frá löndum utan EES verið felldir niður. Núorðið séu tekjur sjóðsins í reynd aðeins óverulegar enda sáralítið flutt inn af fóðurblöndum frá löndum utan EES.
Fram kemur að innflytjendur fái tolla á fóður fellda niður samkvæmt flóknu ferli sem útheimti tímafreka skjalagerð og umsýslu, bæði af þeirra hálfu og opinberra aðila. Ekki verði séð að þessi vinna þjóni nokkrum tilgangi. Að mati Ríkisendurskoðunar er núverandi starfsemi Fóðursjóðs dæmi um óþarfa stjórnsýslu og leggur stofnunin til að hann verði lagður niður og umræddir tollar formlega afnumdir. Tollar á fóðurblöndur frá löndum utan EES eigi að renna beint í ríkissjóð.
Bent er á að ráðherra landbúnaðarmála hafi heimilað afnám fóðurtolla með reglugerð. Að mati Ríkisendurskoðunar leikur vafi á að ráðherra hafi haft valdheimildir til þess. Þá kemur fram að samkvæmt opinberum tölum stjórnvalda hafi fóðurtollar verið allstór hluti af heildartolltekjum ríkisins á undanförnum árum. Að mati Ríkisendurskoðunar gefa tölurnar villandi mynd af tolltekjum því sem fyrr greinir hafa fóðurtollar í reynd verið afnumdir að langmestu leyti, þótt formlega séu þeir enn lagðir á og síðan endurgreiddir.
Sjá nánar:
Fóðursjóður – Tilgangur og ávinningur