Rúningsmeistari Íslands

Rúningsmeistari Íslands var krýndur í gær. Tíu keppendur víðs vegar að af landinu tóku þátt í meistaramótinu og voru vel studdir af hátt á annað hundrað áhorfendum. Mótið fór þannig fram að hver keppandi rúði þrjár ær á einu bretti en umferðirnar voru tvær. Tíminn gilti hinsvegar ekki nema 40% en gæði rúningsins 60% og voru rúningsmenn dæmdir niður m.a.fyrir að klippa í reyfið eða í skinn.

Gísli Þórðarson í Mýrdal á Snæfellsnesi var í þriðja sæti þegar upp var staðið en til úrslita kepptu þeir Julio Cesar Gutierrez frá Hávarsstöðum í Svínadal í Borgarfirði og Trausti Hjálmarsson frá Langsstöðum í Flóahreppi. Trausti var töluvert á undan, rúði þrjár ær á tímanum 3.55 en þegar hinn breski dómari keppninnar hafði kveðið upp úrskurð stóð Julio uppi sem sigurvegari, fékk aðeins 14 refsistig en Trausti 26.


back to top