Sakfelling í dómsmáli vegna aðbúnaðar og umhirðu hrossa
Nýlega féll dómur í Héraðsdómi Suðurlands í máli sem varðaði heilbrigði og velferð dýra en umráðamaður þeirra var sakfelldur í málinu. Mál þetta byrjaði með ábendingu til Matvælastofnunar en í framhaldi var umhirða og ástand tveggja hrossa staðfest af héraðsdýralækni og héraðsráðunaut. Vegna bágs ástands hrossanna reyndist nauðsynlegt að aflífa hrossin. Um var að ræða tvær hryssur. Önnur hryssan var með hófsperru á öllum fótum og gat ekki hreyft sig úr stað. Holdafar hryssunnar var samkvæmt holdstigun á bilinu 1,0 (grindhorað) til 1,5 (horað). Hin hryssan hafði líka hófsperru en auk þess slæma sinubólgu á öllum fótum. Holdafar hennar var samkvæmt holdstigun á bilinu 1,5 (horað) til 2,0 (verulega aflögð).
Samkvæmt lögum hafa umráðamenn og eigendur dýra margvíslegum skyldum að gegna gagnvart sínum dýrum. Umráðamönnum hrossa ber t.d. skylda til að veita hrossum sínum nægjanlegt fóður og vatn auk þess sem hross eiga að hafa aðgang að skjóli. Umráðamönnum er skylt að fylgjast reglulega með hrossum sínum og hafa reglulegt eftirlit með heilbrigði þeirra. Skylt er að gefa ormalyf a.m.k. einu sinni á ári og snyrta hófa og raspa tennur eftir þörfum.
Matvælastofnun fylgdi málinu eftir með kæru til lögreglu fyrir brot á lögum nr. 15/1994 um dýravernd og reglugerð nr. 160/2006 um aðbúnað, umhirðu og heilbrigðiseftirlit hrossa sem byggð er á lögum nr. 103/2002 um búfjárhald. Ákæra var gefin út í málinu og ákært var á grundvelli framangreindra laga fyrir þá grófu vanrækslu á aðbúnaði, umhirðu og fóðrun sem lýst var að framan.
Ákærði játaði brot sitt á málinu og taldi dómurinn játningu hans vera í samræmi við ákæru og önnur gögn málsins. Refsing þótti hæfilega ákveðin 200.000 kr. í sekt en ella sæta fangelsi í fjórtán daga.
Tekið skal fram að meðfylgjandi mynd tengist málinu ekkert.