SAM leggur til að greiðslumark mjólkur verði sem næst óbreytt

Á fundi Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði sem haldinn var í síðustu viku, var ákveðið að gera tillögu að 116 milljón lítra greiðslumarki mjólkur árið 2011 en þá verður verðlagsárið jafnframt fært að almanaksári. Það er því sem næst óbreytt greiðslumark frá því sem nú er. Greiðslumark yfirstandandi 16 mánaða verðlagsárs (1. september 2009-31. desember 2010) er 155 milljónir lítra, ef það er reiknað yfir á 12 mánuði, samsvarar það 116,25 milljónum lítra.
Sala á próteingrunni undanfarna 12 mánuði er rúmlega 115 milljónir lítra en spár gera ráð fyrir að 12 mánaða sala verði komin í 116 milljónir lítra í kringum næstu áramót. Mjólkurafurðir halda því ágætlega sínum hlut, sem er afar ánægjulegt, sérstaklega í ljósi þess að umtalsverður samdráttur hefur átt sér stað í dagvörusölu á undanförnum misserum.


back to top