Samanburður á aðferðum við fóðrun mjólkurkúa í lausagöngufjósum
Síðastliðinn föstudag (21. sept.) varði Unnsteinn Snorri Snorrason meistararitgerð sína við auðlindadeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Verkefni Unnsteins er á sviði búvísinda og nefnist „Samanburður á aðferðum við fóðrun mjólkurkúa í lausagöngufjósum”. Prófdómari var Jóhannes Sveinbjörnsson, dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands, en í meistarprófsnefnd voru Dr. Daði Már Kristófersson, sérfræðingur hjá Bændasamtökum Íslands aðalleiðbeinandi og Dr. Torfi Jóhannesson, verkefnastjóri hjá vaxtarsamningi Vesturlands, meðleiðbeinandi.
Unnsteinn Snorri starfar nú sem bygginga- og bútækniráðunautur hjá Byggingaþjónustu Bændasamtaka Íslands.
Útdráttur og niðurstöður verkefnisins:
Fóðrun er mikilvægur verkþáttur við mjólkurframleiðslu. Einkum vegna þess að um er að ræða stóran hluta af daglegu vinnuframlagi og ekki síður vegna þess að fóðurkostnaður er einn af stærstu kostnaðarliðum mjólkurframleiðslu.
Við val á fóðrunaraðferðum þarf að taka tillit til fjölmargra þátta, eins og vinnuframlags, rekstrarkostnaðar, bústærðar, fóðurkostnaðar og óbeinna áhrifa fóðrunaraðferða. Aðskilin fóðrun þar sem gróffóður og kjarnfóður er gefið aðskilið er algengasta fóðrunaraðferðin í lausagöngufjósum á Íslandi. Heilfóðrun þar sem búin er til einsleit blanda allra fóðurtegunda hefur náð nokkuri útbreiðslu hér á landi á síðustu árum.
Markmið þessarar rannsóknar var að bera saman mismunandi aðferðir við fóðrun mjólkurkúa í lausagöngufjósum með tilliti til vinnuframlags, kostnaðar og arðsemi. Rannsóknaraðferðir fólust í mælingum á vinnuframlagi við fóðrun mjólkurkúa, útreikningum á arðsemi fóðrunarðaferða og athugun á afurðarupplýsingum í skýrsluhaldsgrunni Bændasamtaka Íslands (BÍ) með það að markmiði að greina hugsanleg fóðrunarleg áhrif heilfóðrunar.
Vinnuframlag var metið fyrir eftirfarandi fóðrunaraðferðir:
Að meðaltali yfir allar mælingar var vinnuframlag við fóðrun mjólkurkúa 0,6 mín/kú/dag (SD ±0,2). Fóðrunaraðferð AF-I var með lægsta vinnuframlagið 0,41 mín/kú/dag (SD ±0,08). Af-II var með vinnuframlag upp á 0,69 min/kú/dag (SD ±0,11). HF-I var með hæsta vinnuframlagið 0,84 min/kú/dag (SD ±0,02). Meðal vinnuframlag við HF-II var 0,45 min/kú/dag (SD ±0,15).
Samkvæmt niðurstöðum úr greiningu á skýrsluhaldsgögnum BÍ var óverulegur munur á nyt og próteinprósentu milli búa með aðskilda fóðrun og heilfóðrun. Hins vegar reyndist fituprósenta 0,1 marktækt hærri á búum með heilfóðrun.
Arðsemisgreining var gerð á eftirfarandi fóðrunaraðferðum fyrir bústærðir 40, 80, 120 og 160 kýr:
Kostnaður við fóðrun reyndist í öllum tilvikum vera lægri við aðskilda fóðrun en heilfóðrun. Fyrir bústærðir 40 og 80 kýr var AF-I með lægsta fóðrunarkostnaðinn en við bústærð 120 og 160 kýr var AF-II með lægsta fóðrunarkostnaðinn.
Samkvæmt niðurstöðum arðsemisgreiningarinnar þarf nytaukningin í OLM að vera 9,8%; 4,6%; 3,1%; 2,5% fyrir bústærð frá 40, 80, 120 og 160 kýr til þess að heilfóðrun skili sömu arðsemi og við aðskilda fóðrun. Arðsemi heilfóðrunar eykst með aukinni bústærð, sem skýrist af betri nýtingu á fjármagnskostnaði fóðrunarbúnaðar.
Grundvöllur þess að heilfóðrun skili sömu arðsemi og aðskilin fóðrun byggist á því að heilfóðrun hafi jákvæð áhrif á afurðir gripa, fóðurnýtingu, heilbrigði eða auðveldi nýtingu á ódýrari fóðurtegundum og stuðli þar með að lægri fóðrunarkostnaði.