Segir landbúnaði og neytendum kunni að vera ógnað
Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, var ómyrkur í máli þegar hann spurði Einar K. Guðfinnsson, landbúnaðarráðherra, um afleiðingar þess að matvælalög Evrópusambandsins verði lögfest hér á landi. Sagði hann hagsmunaaðila í landbúnaði fullyrða, að nýja löggjöfin muni dauðrota og eyðileggja íslenskar kjötvinnslur og erlent kjöt muni flæða inn á íslenska markaðinn.
Guðni sagði, að bændur framleiddu nú 25 þúsund tonn af kjöti og innflutningur á lægri tollum hefði numið 7-800 tonnum á ári. Nú fullyrði hagsmunaaðilar, að samþykkt matvælalöggjafar ESB, kunni að leiða til þess að innflutningur á kjöti kunni að aukast um 6-7 þúsund tonn og verða 25-30% af innanlandsneyslunni. Þetta varði störf þúsunda manna. Einnig sé hætta á að fæðuöryggi verði ógnað vegna sýkingarhættu.
Hvatti Guðni til þess, að beðið verði með að afgreiða lögin þar til farið hafi fram áhættumat um matvælaöryggi neytenda og hvort dýraöryggi sé ógnað. Einnig verði metið hvort hætta sé á jafn risavöxnum innflutningi og hagsmunaaðilar spá og hvaða mótvægisaðgerða stjórnvöld geti þá gripið til.
Einar K. Guðfinnsson, landbúnaðarráðherra, sagði að farið hefði verið mjög varlega í þessu máli og undirbúningur hefði staðið árum saman. Áhættumat hefði verið gert vegna búfjársjúkdóma og niðurstaðan sýndi, að áhættan væri lítil sem engin.
Einar sagði að sá innflutningur, sem nú færi þegar fram á grundvelli WTO- og ESB-samninga gæti fylgt áhætta. Reynt væri að draga úr þeirri áhættu eins og unnt sé og tryggja að íslenskir búfjárstofnar verði verndaðir áfram. Þess vegna væri mikilvægt, að samþykkja matvælalögin svo hægt sé að sækja viðbótartryggingar, sem nauðsynlegar eru.
Einar sagði, að Íslendingar gætu ekki búið við óbreytt ástand í þessum efnum. Það hefðu verið gerðar þær breytingar á matvælalöggjöf Evrópu að sá kostur væri ekki fyrir hendi.