Sett verði stærðarmörk á svínabú
Jón Bjarnason, fyrrum landbúnaðarráðherra og þingmennirnir Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Lilja Mósesdóttir og Ólína Þorvarðardóttir hafa lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, svokölluðum búvörulögum.
Frumvarpið snertir fyrst og fremst svínabændur og framleiðendur svínakjöts en í frumvarpinu er t.d. að finna ákvæði þess efnis að settar verði tilteknar takmarkanir á stærð svínabúa. M.a. er lagt til að sérhverjum framleiðanda verði ekki heimilt að vera með meira en 15% af hæfilegu framleiðslumagni svínakjöts á hverjum tíma.
Þá er einnig lagt til í frumvarpinu að lögfestar verði tilteknar takmarkanir á svínakjötsframleiðslu miðað við þarfir og eftirspurn innanlandsmarkaðar.