Skýrsla formanns 2003
Ársskýrsla 2003
Aðalfundur félagsins var haldinn 28. janúar hér á Laugalandi og var hann mjög vel sóttur. Á félagsráðsfundi 17. febrúar var síðan fráfarandi stjórn endurkosin í óbreyttri mynd. Alls hittist félagsráð fimm sinnum á árinu og stjórn hélt þrjá formlega símafundi, auk þess sem hún var í stöðugum tölvupóstsamskiptum. Sem fyrr höfum við haft aðgang að starfskröftum Runólfs Sigursveinssonar hjá Búnaðarsambandinu og hefur það reynst okkur ómetanlegt. Ekki er ástæða til að tíunda sérstaklega öll þau atriði sem tekin hafa verið fyrir innan félagsráðs á árinu, enda eru allar fundargerðir þess birtar á vefsíðum LK og Bssl og í fréttabréfi Bssl.
Í gegnum tíðina höfum við sífellt verið að reyna að þróa félagsráðsfundina í þá átt að gera þá skilvirkari. Því hefur hins vegar oft verið haldið fram að það efni sem tekið er fyrir og þá einkum þegar fengnir hafa verið gestir til að fjalla um einstaka efnisþætti, að það eigi eins erindi við hinn almenna bónda eins og sjálft félagsráðið. Þetta má að sjálfsögðu til sanns vegar færa og auðvitað er aldrei gert nóg af því að halda fram upplýsingum og umræðu innan greinarinnar. Hins vegar má það ekki gleymast að félagsráðið er kjarni félagsins og því mikilvægt að það haldi uppi öflugri, upplýstri umræðu innbyrðis og slíkt verður trauðla gert til hlítar á opnum fundum. Á fundi 31. mars var þó gerð tilraun til að ná saman báðum þessum áherslum með því að hafa seinni hluta fundarins opin. Fenginn var fyrirlesari, Ólafur Guðmundsson frá Aðfangaeftirlitinu, til að fjalla um verksvið sitt og þá einkum eftirlit með áburði, sáðvörum og kjarnfóðri. Var þetta gert til að fylgja eftir umræðu um þetta efni bæði innan félagsráðsins svo og meðal bænda sjálfra. Þátttaka í fundinum var hins vegar mjög lítil og vekur það óneitanlega upp spurningar um framtíð þessa fyrirkomulags.
Félagið sendi 9 fulltrúa á aðalfund LK sem að þessu sinni var haldinn á Hótel Sögu 10. og 11. apríl. Meginefni fundarins var auk hefðbundinna aðalfundastarfa lokaúrvinnsla á Stefnumörkun í nautgriparækt sem unnin hafði verið að á s.l. tveimur árum, umfjöllun um stuðning við framleiðslu gæðanautakjöts o.fl. Stefnumörkunin var síðan fullkláruð af stjórn, sett upp og send mjólkurframleiðendum nú í haust.
Aðalfundur Bssl var haldinn á Heimalandi 9. apríl og sendum við þangað fimm fulltrúa. Stærsta mál þess fundar var án nokkurs vafa afgreiðsla á tillögum laganefndar, en í undirritaður átti sæti í henni. Í megindráttum gengu tillögurnar út á að jafna atkvæðavægi félagsmanna einstakra aðildarfélaga innan Búnaðarsambandsins við ákvörðun á fjölda aðalfundafulltrúa. Auk þess sem tekið var nokkurt mið af umfangi einstakra búgreina í því efni. Félagsráð hafði fjallað um umrætt álit laganefndar á fundi sínum 17. febrúar og fékk það þar all ýtarlega umfjöllun. Í framhaldinu voru teknar saman athugasemdir, sem sendar voru stjórn og laganefnd Búnaðarsambandsins auk þess sem fulltrúar félagsins höfðu þær til hliðsjónar. Þess má og einnig geta að ekkert annað aðildarfélag sendi inn athugasemdir vegna þessa. Í umræðum á fundinum komu fram mjög skiptar skoðanir um tillögurnar og þrátt fyrir að meirihluti fulltrúa væri hlynntur tillögunum varð niðurstaðan sú að þær voru felldar. Allar nema þær breytingar sem þurfti til að megin tillögurnar stæðust. Enda náðu þær ekki tilskyldum auknum meirihluta.
Þann 16. október var haldinn samráðsfundur félagsráðs og nautgriparáðunauta Bssl. Var þar ýtarlega fjallað um þjónustu Búnaðarsambandsins við kúabændur. Fundir sem þessir höfðu að jafnaði verið haldnir gegnum tíðina en tvö síðustu ár var gerð tilraun með að hafa þar annan hátt á sem ekki þótti skila nægum árangri. Af reynsluni að dæma verður því að teljast líklegt að þessir samráðsfundir séu aftur komnir til að vera.
Til viðbótar áðurnefndum fundum sat formaður aðalfund MBF, formannafundi LK og Bssl auk annarra tilfallandi funda ýmist að okkar eigin frumkvæði eða annarra.
Stjórn LK stefndi að því að halda fundi meðal aðildarfélaga sinna nú í haust. Þegar kom fram á haustið var ákveðið að fresta þeim meðan mjólkurhópurinn er að störfum enda líklegt að sú vinna sem þar fer fram brenni helst á bændum um þessar mundir. Eins og staðan er í dag lítur þó út fyrir að ekki vinnist tími til þessa fyrr en nýr samningur verður í höfn, gangi þau mál eðlilega fyrir sig. Dragist það hins vegar á langinn mun stjórn FKS meta hvort ekki ástæða sé til að boða slíkra funda.
Mjólkurverð til bænda hækkaði um 2.4% þann 1. janúar. Þetta er sem nemur allri þeirri hækkunarþörf sem verðlagsmódelið sýndi 1. sept. sl. Hækkun á vinnslu-og dreifingakostnaði var metin 2,27% en þrátt fyrir það varð engin breyting á heildsöluverði mjólkur þannig að iðnaðurinn tók á sig allan þann kostnað sem þessu nam. Auk þess var því lýst yfir frá hendi iðnaðarins að ekki yrðu neinar verðbreytingar á vörum sem ekki eru háðar heildsöluverðsákvörðunum að sinni. Það er ekki nokkur vafi á því að þarna er að koma fram hagræði af verkaskiptingu og samþjöppun í mjólkuriðnaðinum.
Sala nautakjöts hefur gengið bærilega nú á haustmánuðum og virðast biðlistar að mestu horfnir a.m.k. hér sunnanlands. Verð virðast einnig vera farin að þokast eitthvað upp hjá einstökum slátuleyfishöfum og er það fagnaðarefni, þó enn vanti talsvert á að ásættanlegt sé.
Landbúnaðarráðherra vísaði nú í haust frá beiðni um stuðning við framleiðslu gæðanautakjöts þar sem ekki væri hægt að fá til þess fé frá ríkinu að sinni. Hins vegar lýsti hann áhuga á að gerður yrði viðaukasamningur við mjólkursamninginn í vetur þar sem ákveðinn yrði stuðningur við gæðanautakjöt. Einnig að hluta þess fjár sem verja átti til þróunarstarfs yrði varið í stuðnings við framleiðslu gæðanautakjöts á þessu ári. Niðurstaðan varð sú að fyrir síðasta ár verður verkefnið fjármagnað af Framleiðnisjóði, Þróunarsjóði búvörusamnings og Verðskerðingarsjóði nautgripakjöts.
Væntanlega er óþarfi að hafa mörg orð um stöðuna á íslenskum kjötmarkaði síðustu misserin. Offramleiðsla og undirboð hafa einkennt markaðinn og að stærstum hluta vegna þess hefur verðlagning nautakjöts einnig verið undir framleiðslukostnaði. Af þessum orsökum þótti stjórn FKS ekki þjóna miklum tilgangi að berast mikið á meðan þetta ástand var sem verst. Nú eru hins vegar teikn um að þessir hlutir leyti til meira jafnvægis og því þótti okkur rétt að senda sláturleyfishöfum ályktun og minna á afkomu framleiðenda í þessari grein. Eins sendum við í síðasta fréttabréf Bssl áminningu til framleiðenda um að fylgjast með verðum og greiðslukjörum. Ætlunin er að fylgja þessu enn frekar eftir og stefnir stjórn að því ná fundi sláturleyfishafa á næstu vikum.
Enginn vafi leikur á að það sem helst brennur á kúabændum í dag er sú vinna sem í gangi er vegna nýs samnings um starfskilyrði mjólkurframleiðslunnar. Frá upphafi hefur ríkt talsverð óvissa um framgang þessara mála og þá ekki síst vegna þeirra alþjóðasamninga sem í gangi eru og ákvæða um afnám opinberrar verðlagningar mjólkur á heildsölustigi. Starf mjólkurhópsins sem skila átti stefnumörkun vegna þessa hefur líka nokkuð dregist frá því sem upphaflega var áætlað. Nú er þó stefnt að því að hann skili niðurstöðu um næstu mánaðarmót og þá geti hin eiginlega samningagerð hafist. Óskandi er að svo verði. Því verður auðvitað ekki á móti mælt að í ástandi eins og þessu lamast mest allt annað innra starf greiarinnar. Það er jú enda talsvert þvingandi fyrir greinina að standa í uppbyggingarstarfi meðan ekki er enn ljóst hvert starfsumhverfið verður. Því er afar mikilvægt að unnið verði hratt og örugglega þergar hin eiginlega samningavinna hefst.
Að lokum vil ég svo þakka samstarfsfólki mínu í stjórn og félagsráði svo og öllum sem ég hef haft samskipti við vegna starfa félagsins á liðnu ári. Megi komandi ár verða íslenskum bændum hagfellt.
Sigurður Loftsson formaður.