Skýrsla formanns 2004
Fyrsti fundur félagsráðs eftir aðalfund var haldinn 23. mars og fór þar að venju fram stjórnarkjör. Þar baðst Valdimar Guðjónsson undan endurkjöri en hann hefur verið ritari félagsins frá árinu 2000. Í hans stað var kjörinn ritari, Katrín Birna Viðarsdóttir, en stjórn að öðru leyti óbreytt.
Félagsráðsfundir urðu ekki nema 4 á starfsárinu, en þó verður varla sagt að doði hafi verið í starfsemi félagsins, því alls voru haldnir 8 almennir fundir á svæðinu í samráði við Landssamband kúabænda. Tveir fundir voru í lok febrúar þar sem m.a. var farið yfir niðurstöður skýrslu starfshóps landbúnaðarráðherra um stöðumat og stefnumótun í mjólkurframleiðslu, sem þá var nýlega komun út. Þrír kynningarfundir voru haldnir í maí vegna almennrar atkvæðagreiðslu um nýgerðan mjólkursamning. Loks voru svo nú í byrjun nóvember haldnir 3 fundir, þar sem farið var yfir helstu mál sem í gangi eru á vettvangi greinarinnar.
Stjórn vann sín verk innbyrðis með hefðbundnum hætti, að mestu gegnum fjarskipti en formlegir stjórnarfundir voru 4. Stjórn vann ásamt starfsmönnum BSSL við gerð kjörskrár vegna atkvæðagreiðslu um nýjan mjólkursamning en það er alltaf talsverð vinna og vandasöm á svo stóru félagssvæði.
Félagið sendi níu fulltrúa á aðalfund LK sem haldinn var á Akureyri 16. og 17. apríl. Fimm fulltrúar sátu aðalfund BSSL í Félagslundi 23.apríl og formaður og ritari sátu formannafund Búnaðarsambandsins 29. nóv. Auk þessa sat formaður bæði aðalfund MBF 26. mars og fulltrúafund MBF 8. des.
Félagið stóð ásamt BSSL að kúasýningunni Kýr 2004 í Ölfushöllinni laugardaginn 28. ágúst. Til sýningar mættu alls um 50 gripir og var framkvæmd hennar öll hin ágætasta. Þetta er þriðja sýningin af þessu tagi sem haldin hefur verið hér sunnanlands og hafa þær nú þegar skapað sér talsverðan sess í samfélaginu. Það er full ástæða til að þakka öllum þeim sem lagt hafa á sig ómælda vinnu við undirbúning sýninganna og þjálfun gripa, því annars væri til lítils barist.
Verulegar umpólanir hafa orðið á nautgripakjötsmarkaði síðasta ár þannig að framboð gripa hefur ekki fylgt eftirspurn. Þessi þróun var í fullu samræmi við það mat sem stjórn félagsins lagði á markaðinn í upphafi ársins. Okkur þótti hins vegar sláturleyfishafar hér seinir að taka við sér með hækkun á verði til bænda. Því varð úr að formaður og gjalkeri gengu á fund stjórna beggja sláturhúsanna.
Við hittum stjórn SS þann 29. janúar, en Sláturhússins Hellu 4. mars. Í millitíðinni hafði það gerst að Hella hækkaði verð talsvert á bæði K og UN flokkum og tók um leið upp staðgreiðslu á öllum flokkum. Á þeim tíma virtist okkur skilningur og jákvæðni meiri hjá þeim Hellu mönnum en SS á aðstæðum fyrir frekari hækkunum. Þegar leið að vori lifnaði hins vegar yfir þeim SS mönnum og urðu þá talverðar hækkanir hjá báðum húsunum hér sunnanlands.
Mjólkurframleiðslan s.l. ár var 109.7 millj. ltr. Greiðslumarkið 105.mill. ltr. og umframmjólk því 4,7 mill. ltr. Greitt var fyrir prótein úr 3 millj. ltr. af umframmjólk og helgast það af hinum mikla mun sem orðin er í sölu mjólkurafurða á fitu og próteingrunni, eða milli 10 og 11 millj. ltr.
Greiðslumark yfirstandandi árs er 106 millj. ltr. og hefur því verið hækkað um 1. millj. ltr. frá fyrra ári. En vegna þess mikla muns sem er milli sölu á próteini og fitu, eins og áður sagði hljótum við að vænta þess að greitt verði að einhveju leyti fyrir prótein úr umframmjólk á þessu ári. Æskilegt væri fyrir allra hluta sakir að afurðastöðvar færu að gefa út hvort og þá hversu mikið það verður.
Félagsráð ræddi á fundi 5. október um framkvæmd á uppgjöri vegna umframmjólkur síðasta verðlagsár, sem mörgum þótti ganga heldur seint fyrir sig. Í framhaldi af því var send ályktun til SAM og BÍ þar sem skorað var á þessa aðila að flýta þessu uppgjöri. SAM hefur síðan svarað þessu erindi með bréfi dagsettu 30. nóv. Þar er því heitið að leitað verði allra leiða til að flýta eins og kostur er greiðslum til framleiðenda fyrir móttekna og keypta umframmjólk. Þó verði að tryggja að hugsanlegar breytingar á framgangi uppgjörsins komi ekki niður á gæðum þess.
Verðlagsnefnd ákvað að hækka á mjólkurverði til framleiðenda um 3.4% nú um s.l. áramót. Hins vegar var ekki hækkað verð til neytenda og er það þriðja árið í röð sem iðnaðurinn tekur á sig allar kostnaðarhækkanir við framleiðslu sína. Ekki er vafi á að sú mikla hagræðing sem átt hefur sér stað innan iðnaðarins er þarna að skila sér. Hinu má þó ekki gleyma að markviss vöruþróun og markaðsstarf ræður líka miklu um að gera þetta mögulegt. Í því sambandi er bæði rétt og skylt að benda á og þakka glæsilegan árangur Mjólkurbús Flóamanna og starfsmanna þess við þróun og framleiðslu nýrra vörutegunda.
Á aðalfundi LK síðastliðið vor var samþykkt að leita eftir endurskoðun á verkaskiptasamningi LK og BÍ. Eftir umræðu á félagsráðsfundi 5. okt var ákveðið senda ályktun um málið til samningsaðila, þar sem hnykkt var á áherslum og mikilvægi þess að ljúka málinu í vetur. Af þessu máli er það að frétta að skipaður hefur verið starfshópur beggja aðila til að vinna að framgangi þess. Í þessum hóp eru Þórólfur Sveinsson, Sigurður Loftsson og Snorri Sigurðsson fyrir hönd LK. En Haraldur Benediktsson, Gunnar Sæmundsson og Sigurgeir Þorgeirsson frá BÍ. Hópurinn hélt sinn fyrsta fund 13. janúar, þar sem þreifað var á áherslupunktum. Allt of snemmt er að segja til um hvernig þessum máli muni vinda fram, en næsti fundur er áætlaður fljótlega í febrúar.
Allmikil umræða hefur verið um lánsfjármögnun í landbúnaði og reyndar fjármagnsmarkaðinn í heild, þetta síðasta ár. Búnaðarþing 2004 beindi því til stjórnar BÍ, að farið yrði í grundvallar endurskoðun á því hvernig fjármagnsþörf landbúnaðarins yrði best mætt, til framtíðar litið og átti að skila áliti um það efni fyrir næsta búnaðarþing. Trúlega hefur þó engan órað þá fyrir þeim gríðarlegu breytingum sem orðið hafa á íslenskum fjármagnsmarkaði síðan og er trúlega óþarft að fjölyrða frekar um hér. Félagsráð ræddi þetta efni á fundi 5. okt og þá ekki síst starfsemi Lánasjóðs landbúnaðarins. Var í kjölfarið ákveðið að senda frá félaginu tvær ályktanir um þetta efni. Var í annarri þeirra hvatt til þess að lög um Lánasjóð landbúnaðarins verði tekin til endurskoðunar þannig, að fallið verði frá skilyrðislausri kröfu um fyrsta veðrétt. En í hinni var ályktun Búnaðarþings 2004, um þetta efni fagnað, og þess óskað að þeirri vinnu verði hraðað. Jafnframt var þeirri skoðun lýst að fallið skuli frá töku búnaðargjalds til niðurgreiðslu vaxta.
Það er hins vegar ljóst að þetta gríðarlega umrót á lánsfjármarkaði hefur skapað mikla óvissu um rekstrargrundvöll Lánasjóðs landbúnaðarins. Enda eru möguleikar hans í samkeppni við aðra lánveitendur afar veikir og eins ljóst að ekki verður til lengdar sátt um töku búnaðargjalds til lækkunar vaxta hjá sjóðnum.
Landbúnaðarráðherra skipaði nýlega starfshóp sem skoða á kosti og galla þriggja skilgreindra leiða, varðandi framtíð Lánasjóðsins. Skal hópurinn skila áliti fyrir lok febrúar og því ljóst að málið verður án nokkurs vafa eitt stærsta mál komandi Búnaðarþings.
Samkvæmt bréfi sem sent var mjólkurframleiðendum með síðasta fjósskoðunarvottorði frá Embætti yfirdýralæknis var gerð krafa um að fyrir lægi umsókn um starfsleyfi vegna vatnsbóls og vatnsveitu býlisins, fyrir næstu fjósskoðun. Er þetta gert í krafti reglugerðar nr.438/2001 um aðbúnað nautgripa og eftirlit með framleiðslu mjólkur og annara afurða þeirra, þar sem í 4. málsgrein 12. greinar er vísað til krafna um um neysluvatn samkvæmt reglugerð 536/2001. Þetta mál var talsvert rætt á fundi félagsráðs 5. okt. og var stjórn falið að skoða forsendur þess og framgang í framhaldi af því. Í því skini átti síðan formaður ásamt Runólfi Sigursveinssyni og Þorfinni Þórarinssyni formanni BSSL fund með Elsu Ingjaldsdóttur framkvæmdastjóra og Sigrúnu Guðmundsdóttur starfsmanni Heilbrigðseftirlits Suðurlands. Það var í raun ágætur og upplýsandi fundur, þó strax hafi verið ljóst að ekki yrði komið við neinum breytingum á framgangi málsins. Hins vegar kom fram að í V-Skaft. væru þessi mál í ágætu róli, en talsverður misbrestur væri á að umsóknir hefðu borist úr Árnes- og Rángárvallasýslu. Í framhaldi af þessu áttu síðan formaður og ritari ásamt Runólfi Sigursveinssyni fund með Katrínu Andrésdóttur héraðsdýralækni um hvernig staðið verði að framkvæmd fjósskoðunar hvað þetta varðar. Þar kom fram að ekki verður gerð krafa á annað en fyrir liggi umsókn um starfsleyfi þeirrar vartnsveitu sem umræddur mjólkurframleiðandi nýtir. Þeir framleiðendur sem aðild eiga að samveitum eiga ekki að þurfa að hafa áhyggjur af þessu, nema umrædd veita sé ekki með starfsleyfi eða ekki komin í réttan umsóknarferil.
Niðurstaðan varð sú að senda dreifibréf til allra mjólkurframleiðenda, þar sem þetta var kynnt og bændur hvattir til að skoða stöðu sína í þessu efni.
Árlegur samráðsfundur félagsráðs og ráðunauta BSSL var haldinn 14. desember. Þar var að venju ýtarlega rætt um þjónustu Búnaðarsambandsins við greinina svo og önnur hagsmunamál. M.a. kom til umræðu aðbúnaður gripa á nautauppeldisstöð BÍ í Þorleifskoti. Ljóst er að þrátt fyrir að umhirða gripanna þarna sé með miklum ágætum, er aðstaðan löngu úr sér gengin og uppfyllir engan veginn eðlilegar kröfur. Því varð úr að félagið sendi til BÍ ályktun þar sem bent var á mikilvægi úrbóta í þessu efni.
Skrifað var undir nýjan mjólkursamning nú á vordögum og væntanlega hefur þá rekstrarumhverfi nautgriparæktarinnar verið tryggt fram til ársins 2012. Í flestum atriðum hygg ég að samningurinn sé okkur hagstæður og skiptir þar ekki síst máli að stuðningsupphæðir eru verðtryggðar. Í almennri atkvæðagreiðslu um samninginn meðal kúabænda var hann samþyktur með 94,1% greiddra atkvæða og segir það sína sögu um álit bænda. Enn er þó ófrágengnn sá hluti samningsins sem formbreyta á í ,,óframleiðslutengdar og/eða minna markaðstruflandi greiðslur’’. Sá hluti á að taka gildi verðlagsáramótin 2007-2008 og verði þá 49 mill. En fari síðan stig hækkandi og verði 282 mill. í lok samningins. Gert er ráð fyrir að komið verði samkomulag um þetta fyrir 1. sept 2006.
Félag kúabænda á Suðurlandi var stofnað 13. mars 1985 og er því 20 ára um þessar mundir. Þó 20 ár séu ekki langur tími í sögu þjóðar, þá hygg ég að okkur sem staðið höfum fyrir búi þennan tíma þyki nokkuð um þær breytingar sem orðið hafa á þessum tíma og er þá sama hvort litið er til nautgriparæktarinnar eða þjóðfélagsins í heild. Félagið varð til á tímum mikilla þrenginga í greininni og umróts í félagskerfi bænda. Stofnendurnir voru flestir ungt og baráttuglatt fólk, sem ekki undi hag sínum við óbreyttar aðstæður. Það hefur því ekki farið hjá því að gustað hafi um félagið á tíðum, enda er megin verkefni þess að standa vörð um hagsmuni kúabænda og má því aldrei vægja sér undan gagnrýni hvorki þeirra né annara.
Félagsráð ræddi þessi tímamót á fundi 23. mars. Var þar ákveðið að skipa afmælisnefnd til að gera tillögur um afmælishald og framkvæma þær. Nefndina skipa Birna Þorsteinsdóttir Reykjum formaður, Ólafur Kristjánsson Geirakoti og Jóhann Nikulásson Stóru-Hildisey 2.
Skipta má þáttum sem snúa að afmælishaldinu í 3 liði.
- Útgáfa afmælisrits. Ritstjóri hefur verið ráðinn Tjörfi Bjarnason starfsmaður á útgáfusviði BÍ. Honum verður til aðstoðar Páll Lýðsson, afmælisnefnd og stjórn félagsins. Ætlunin er að líta yfir þróun kúabúskapar síðustu 20 ár og reyna að skyggnast til framtíðar. Vinna við útgáfuna er komin vel á veg, en stefnt er á að blaðið komi út í mars mánuði.
- Landsamband kúabænda mun halda aðalfund sinn á Selfossi 8. og 9. apríl. Í raun má segja að FKS þarna í hlutverki gestgjafa og er ætlunin að standa að því með veglegum hætti.
- Árshátíð kúabænda verður svo laugardagskvöldið 9. apríl á Hótel Selfoss og verður hún alfarið á hendi FKS.
Góðir félagar hér hefur verið stiklað á þeim helstu málum sem borið hafa að á liðnu ári, þó margt fleira hefði sjálfsagt mátt með réttu tína til. Þó er eitt atriði enn sem mig langar að ræða hér, en það er fyrirkomulag kosninga á aðalfundi svo og hvort ástæða er til breytinga á samþykktum félagsins hvað þær varðar. Í Félagsráði hefur hin síðari ár verið einhugur um að skipa uppstillinganefnd vegna kosninga í þær trúnaðarstöður sem aðalfundi ber samkvæmt lögum félagsins. Hefur aðalfundur í öllum tilfellum samþykkt þá skipun og jafnframt nánast undantekningalaust þá tillögu sem nefndin hefur lagt fram. Ekki er vafi að þessi aðferð hefur flýtt mjög störfum aðalfundar og gert þau skilvirkari. Eins má segja að með þessu hafi verið tryggður ákveðinn stöðugleiki hvað varðar sjónarmið og dreifingu fulltrúa um svæðið. Hins vegar er alltaf nokkur hætta á að upp komi óánægja þegar kosningar eru framkvæmdar með þessum hætti og því haldið fram, sjálfsagt bæði með réttu og röngu, að þær séu ekki nógu lýðræðislegar. Ég tel hins vegar ekki í augsýn betri leið til að framkvæma þessar kosningar eins og verið hefur nema þá að nánast allur tími aðalfundarins fari í þær.
Ég vil hér í lokin velta upp nokkrum spurningum varðandi samþykktirnar og biðja ykkur að hugleiða þær og ræða hér á eftir, ef tilefni er til.
- Í lögunum segir ekkert sérstaklega um kosningu fulltrúa á aðalfundi LK og BSSL. Aftur á móti segir að kosið skuli um aðrar þær trúnaðarstöður sem félagsráð ákveði! Þetta þýðir að það er á valdsviði félagsráðs hvernig kjöri fulltrúa á aðalfundi LK og BSSL er háttað. Eftir því ég best veit hefur félagsráð alltaf vísað þessu kjöri til aðalfundar og má því segja að á því hafi skapast ákveðin hefð. Er ástæða að breyta þessu?
- Félagsráð skal kosið á aðalfundi, síðan kýs félagsráðið 3. manna framkvæmdastjórn. Teljist það fullboðlegt lýðræði að félagsráð kjósi stjórn félagsins úr sínum röðum, en ekki aðalfundur. Hvers vegna er þá ekki jafn eðlilegt að það kjósi umrædda aðalfundafulltrúa líka þannig?
- Hver mótar stefnu félagsins? Er það ekki stjórn, félagsráð og síðast en ekki síst aðalfundur? Væri því í ekki raun eðlilegra að stjórn sé kosin á aðalfundi en þessir aðalfundafulltrúar?
- Er það ekki fyrst og fremst verkefni fulltrúa félagsins á aðalfundum LK og BSSL að bera fram stefnu félagsins þar? Sé svo, er þá ekki eðlilegast og jafnvel æskilegast að sá hópur komi úr röðum hins virka kjarna félagsins, félagsráðs og stjórnar?
Lög félagsins í núverandi í núverandi mynd eru frá árinu 1995 og verða því tíu ár frá því að þau voru síðast endurskoðuð. Það ætti því að vera vel við hæfi að nota afmælisárið til að fara gaumgæfilega yfir lögin og forsendur þeirra. Hér á eftir mun því koma fram tillaga frá félagsráði og stjórn um skipun laganefndar.
Að lokum vil ég svo þakka samstarfsfólki mínu í stjórn og félagsráði svo og öllum sem ég hef haft samskipti við vegna starfa félagsins á liðnu ári. Megi komandi ár verða íslenskum bændum hagfellt.
Sigurður Loftsson
formaður.