Skýrsla um markaðssetningu íslenska hestsins erlendis

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, hélt í gærmorgun, 10. desember 2009, fréttamannafund þar sem kynnt var skýrsla um markaðssetningu íslenska hestsins erlendis. Skýrslan er unnin af nefnd á vegum ráðuneytisins sem hafði að verkefni, m.a. að meta hvernig staðið er að kynningu íslenska hestsins erlendis.

Nefndin hefur nú lokið störfum og komið fram með ýmsar hugmyndir til að auka framgang íslenska hestsins alþjóðlega í samkeppni við önnur sporthestakyn, tryggja stöðu hrossa fæddra og uppfóstraðra á Íslandi í samkeppni við erlend fædd hross af íslenskum stofni og auka þátt hestsins í landkynningu. Skal hér nefnt þrennt:


Fyrsta; markaðsátak á árinu 2010 undir heitinu: Hestavika á Íslandi að vetri en íslensk vetrarhestamennska bæði í borg og byggð er á margan hátt einstök í sinni röð. Annað; aukið yrði framboð á fjölþættum hestasýningum fyrir ferðamenn og þriðja; gert yrði átak til að fá viðurkenningu á hestaíþróttum á íslenskum hestum sem ólympíska íþrótt.


Hér fyrir neðan má sjá punkta sem afhentir voru á fundinum og með því að smella hér má skoða skýrsluna í heild sinni.



Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið


Fréttamannafundur Jóns Bjarnasonar í tilefni af útkomu skýrslunnar Markaðssetning íslenska hestsins erlendis


Lykilatriði er varða markaðssetningu íslenska hestsins
Íslenski hesturinn
…og íslensk menning eru samofinn,
…er öflugastur í krafti hámarksgetu og -gæða,
…á í harðri samkeppni um iðkendur við önnur sporthestakyn, eigum því samleið með eigendum hrossa af íslensku kyni um heim allan um að auka hlutdeild hans,
…ræktaður, fæddur og uppalinn á Íslandi hefur sérstöðu umfram hesta af íslensku kyni sem fæddir eru og uppaldir erlendis.


Forsendur árangursríkrar markaðssetningar
…fjölbreytt og öflug hestamennska á Íslandi sem byggir á fagmennsku og almennri ástundun og þátttöku,
…framboð á fræðslu og kennslu um íslenska hestinn, meðferð hans og um reiðmennsku á íslenskum hestum, fyrir alla aldurshópa, byrjendur sem og lengra komna, 
…að Íslendingar tryggi sér með störfum sínum forystuhlutverk í málefnum íslenska hestsins um heim allan,
…að nýta áhuga, þekkingu og sambönd Íslandshestasamfélagsins erlendis í markaðssetningu á íslenska hestinum og íslenskum vörum,
…að starfrækt sé öflug alhliða og opin upplýsingaveita um íslenska hestinn,
…að frumkvæði sé í höndum greinarinnar sjálfrar, 
…öflug landsmót og heimsmeistaramót íslenska hestsins en þau eru kröftug til útbreiðslu og kynningar.


Helstu tillögur
Styrking greinarinnar
• Auka nám í hestafræðum í framhaldsskólum og efla það þar sem það er nú þegar kennt í sérskólum og háskólum, m.a. með að auka fjarnám, koma á framgangskerfi í menntun, þekkingu og þjálfun starfandi fagfólks í hestamennsku.
• Þýða knapamerkjakerfið á erlend tungumál.
• Tryggja að allar ákvarðanir stjórnvalda í málefnum íslenska hestsins verði teknar í samráði við greinina sjálfa.
• Þróunarfjárnefnd hrossaræktarinar fái áfram sama framlag að raungildi og síðustu fimm árin.
• Virðisaukaskattur á lifandi hross verði lækkaður í 7%.
• Íslensk stjórnvöld styðji starf FEIF (alþjóðasamtök eigenda og unnenda íslenska hestsins) til kynningar og útbreiðslu íslenska hestakynsins og verði sendiráðum Íslands fengið ákveðið hlutverk í því sambandi.
• Útflutningsráð setji á laggirnar ráðgjafahóp um markaðsmál íslenska hestsins og noti póstlista yfir eigendur íslenskra hesta  um heim allan til markaðssetningar á viðburðum, vörum og þjónustu um íslenska hestinn og Ísland.
• Áframhaldandi uppbygging reiðvega og staðinn sé vörður um gamlar reiðleiðir.
• World-Fengur verði alhliða opin vefgátt um íslenska hestinn, á helstu tungumálum og verði fyrsta vefgátt leitarvéla um íslenska hestinn.   Hann verði áfram miðpunktur fagupplýsinga en að auki markaðsgluggi með aðgengilegum upplýsingum og fræðsluefni, auk upplýsinga um söluhross. 
• Tryggja þarf rekstrargrundvöll World-Fengs.
• Tryggja rekstur Landsmóts hestamanna og endurskoða opinber gjöld.
• Hönnunarsamkeppni og efla framleiðslu og markaðssetningu á vörum tengdum íslenska hestinum.


Ferðaþjónusta
• Nýta íslenska hestinn betur í landkynningarstarfi og efla framleiðslu á kynningarefni.
• Beina markaðsstarfi að aðdáendum íslenska hestsins erlendis.
• Gera upplifun af íslenska hestinum jafn eftirsóknarverðan hluta af Íslandsdvöl og t.d. Gullni hringurinn og Bláa lónið.
• Markaðsátak 2010 – Hestavika að vetri í mars 2010, þar sem lagt verði í sérstakt átak til kynningar á íslenskri vetrarhestamennsku um land allt. Boðið verði upp á fjölþætta viðburði innan dyra og utan, s.s. opið hesthús, töltkeppni, ískappreiðar o.fl. Einn af hápunktum þessa viðburðar yrði uppboðsmarkaður fyrir hross í líkingu við markaði sem haldnir eru víða erlendis fyrir hross af ýmsum heitblóðskynjum.
• Auka framboð á öllum tímum árs á fjölbreyttum tilboðum fyrir erlenda áhugamenn um íslenska hestinn, um fræðslu og kennslu o.fl.
• Auka framboð á hestasýningum sem afþreyingu fyrir ferðamenn.


Íslenski hesturinn á Ólympíuleikanna
• Fá viðurkenningu á hestaíþróttum á íslenska hestinum sem ólympíska íþrótt. Álitlegast er að fá viðurkenningu á töltkeppni (T1) og gæðingaskeiði (PP1) sem hluta af reiðmennskukeppnum Ólympíuleikanna.


 


 


 


 


 


 


Staðreyndir um íslenska hestinn
Um 80 þúsund hross á landinu, tveir þriðju íslenska hrossastofnsins er erlendis.
Um 450 Íslandshestafélög með um 60 þúsund félagsmenn eru starfandi í heiminum, þar af 11 þúsund félagsmenn á Íslandi í 47 félögum
Heildarverðmæti íslenska hestastofnsins á landinu nemur milljörðum króna, (á bilinu 8-15  milljarðar)
Um 2.100 hross voru flutt út á árinu 2008, heildarverðmæti útflutnings var 1.1 milljarður króna, sem er um 100%  aukning frá árinu 2007, þegar 1330 hross voru seld utan að verðmæti um 500 milljónir króna.
Meðalverð hrossa til útflutnings á árinu 2008 var 510 þúsund krónur en er 560 þúsund á árinu 2009.  Meðalverð á hrossum á föstu verðlagi hefur farið hækkandi á undanförnum árum, úr t.d. um 250 þúsund krónur á árinu 1999.
Það stefnir í að um 1700 hross verði seld til útlanda á árinu 2009 og má áætla að verðmæti þess verði um eða yfir 1 milljarður króna.
Á síðustu tveimur árum hefur samanlagt heildarverðmæti lífhrossa og hrossakjöts verið álíka mikið og heildarverðmæti sauðfjárafurða, samanburður þessara talna og allra uppgefinna hagtalna um hrossaútflutninginn er nánar rakin í skýrslunni og er vísað til þess.
Verðmætustu hrossin fara til Austurríkis, Sviss, Þýskalands, Norðurlandanna og Bandaríkjanna.
Á árinu 2008 voru um 700 hross flutt til Svíþjóðar, um 500 til Danmerkur,  um 350 til Þýskalands og rúmlega 100 til Noregs.


Um 18% erlendra ferðamanna hér á landi fara á hestbak og er lítill munur milli árstíða.  Þetta jafngildir um 90 þúsund ferðamönnum.
Áætlaðar tekjur hestaleiga í landinu eru á bilinu 1-1,5 milljarður króna.
Talið er að á bilinu 2500-3500 erlendir ferðamenn hafi komið gagngert á Landsmót hestamanna 2008.


 


 


back to top