Sláturkostnaður hérlendis í sumum tilvikum margfaldur

Samtökin Beint frá býli hafa nú gefið út skýrslu um verðlagningu á heimteknum sauðfjárafurðum. Þar er m.a. að finna samanburð á sláturkostnaði sem hlutfalli af verðmæti dilks milli sláturhúsa og landa. Þar kemur fram að sláturkostnaður er langhæstur hérlendis og lægstur í Skotlandi og Danmörku af þeim löndum sem könnunin tekur til. Þar er nemur hlutfallið 10-15% meðan að sláturkostnaður hér á landi er frá um 35% upp í yfir 40% af verðmæti hvers dilks.

Forsaga skýrslunnar er sú að í febrúar 2010 óskaði stjórn samtakanna Beint frá býli eftir upplýsingum frá sláturleyfishöfum um hvernig sláturkostnaður sauðfjár er myndaður, þar sem hann er einn þeirra kostnaðarliða sem heimavinnslan þarf að bera.  Öllum sláturleyfishöfum var sent erindi þar um. Óskað var eftir sundurliðun og tilgreiningu á nokkrum kostnaðarliðum þ.e.:
-Að kanna núverandi kostnað við vinnslu, pökkun og geymslu sláturafurða.
-Að kanna hvernig gjald fyrir heimtöku kjöts eftir slátrun er myndað.
-Að kanna hvort aðrir kostnaðarliðir eru settir inn í kostnað við slátrun, s.s.  vinnsla,  eldri skuldir, markaðssetning, geymsla og annar rekstur.

Því miður sá aðeins einn aðili sér fært að svara BFB á eftirfarandi hátt: ,,Ég get ekki séð að það skipti máli hvernig þessi kostnaður er byggður upp þ.e.a.s. hvað er fyrir slátrun, frystingu sögun o.s.frv.,,  Þessi viðbrögð sláturleyfishafa vekja upp ýmsar áleitnar spurningar um af hverju þetta áhugaleysi stafar.
Þá var og gerð tilraun til að senda Landssambandi sláturleyfishafa erindi um sama mál og biðja um meðaltalstölur, en þar var einnig hafnað að gefa nokkrar upplýsingar.
Niðurstaðan af þessari könnun er sú að sláturleyfishafar neita allir sem einn  að gefa upplýsingar um verðmyndun á sláturkostnaði og er það ákaflega undarleg afstaða.


Könnun á hvernig núverandi verðlagningu á heimteknum sauðfjárafurðum er háttað hjá afurðastöðvum ásamt samanburði á sláturkostnaði í nágrannalöndunum og dæmum um lítil og færanleg sláturhús


back to top