Sláturleyfishafar breyta verðskrám

Fimm af sjö sláturleyfishöfum hafa gert breytingar á verðskrám sínum á síðustu dögum. Í flestum tilfellum snúast breytingarnar um að dregið er úr verðmun milli vikna en sauðfjárbændur hafa lýst verulegri óánægju með hversu mikill munur er á verðum eftir tímabilum. Meðal annars ályktaði stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda (LS) 24. ágúst síðastliðinn þar sem verðstefnu sláturleyfishafa var mótmælt.
Eitthvað hafa sláturleyfishafar því tekið gagnrýnina til sín en hins vegar er það almenn skoðun bænda að allt of skammt sé gengið í leiðréttingu á verðmuni milli tímabila. Þá er ljóst að vegið meðalverð hefur sáralítið hækkað frá fyrra ári. Vegin afurðaverðshækkun nú sé 1,3 prósent en vanti 15,3 prósent til viðbótar til að ná viðmiðunarverði sem LS hafa gefið út.

Landssamtök sauðfjárbænda hafa eins og undanfarin ár gert samanburð á verðskrám sláturleyfishafa með því að reikna vegið meðalverð afurða. Samanburðinn má nálgast á heimasíðu LS, www.saudfe.is þar sem jafnframt má nálgast fréttir um breytingar einstakra sláturleyfishafa.


back to top