SS í fjárhagslega endurskipulagningu
Sláturfélag Suðurlands sendi frá sér tilkynningu milli jóla og nýárs þess efnis að vinna við fjárhagslega endurskipulagningu hæfist nú í janúar og áætlað væri að henni lyki eigi síðar en 30. júní 2011.
Endurskipulagningin er unnin í samstarfi við Arion banka hf., sem er aðallánveitandi félagsins, og stefnt er að því að lán við Arion banka verði endurfjármögnuð og aðlagaðar betur að greiðslugetu félagsins til lengri tíma. Fram kemur í tilkynningunni að öll lán og skuldir við lánadrottna eru í skilum. Endurskipulagningin á ekki að hafa nein áhrif á skuldir við lánadrottna og snýr eingöngu að endurfjármögnun lána við Arion banka.
Jafnframt segir í tilkynningunni að við fall bankanna haustið 2008 hafi skapast óvenjulegar og sérstakar aðstæður á íslenskum fjármálamarkaði. Í framhaldi af því versnaði fjárhagsstaða Sláturfélagsins vegna mikillar veikingar íslensku krónunnar þar sem skuldir Sláturfélagsins við lánastofnanir eru að stærstum hluta í erlendri mynt. Í árslok 2008 var eiginfjárhlutfall samstæðunnar 16% en hafði verið 36% í árslok 2007. Á undanförnum tveimur árum hefur verið gripið til fjölþættra hagræðingaraðgerða til að bæta rekstur samstæðunnar. Í lok júní 2010 var eiginfjárhlutfall samstæðunnar 27%.
Langtímalán samstæðunnar voru 3.433 milljónir króna 30. júní 2010 og eru að stærstum hluta við Arion banka. Stefnt er að því að lán við Arion banka verði endurfjármögnuð og afborganir þeirra verði betur aðlagaðar að greiðslugetu félagsins til lengri tíma með jafnari árlegum afborgunum.