Stefnt að stofnun hlutafélags um innflutning nýs mjólkurkúakyns

Stefnt er að því að stofna hlutafélag um innflutning á nýjum kúastofni í næsta mánuði. Jón Gíslason, formaður Nautgriparæktarfélags Íslands (NRFÍ), sem barist hefur fyrir innflutningi á norskum kúastofni til Íslands, segir að hið nýja hlutafélag muni sækja um innflutningsleyfi til landbúnaðarráðuneytisins á næstu mánuðum. „Við stefnum að því að sækja um innflutningsleyfi á fósturvísum og sæði úr norska kúastofninum. Ráðuneytið mun þá leita álits hjá umsagnaraðilum eins og yfirdýralækni og fleiri aðilum.“
Telur norska kúakynið betra
Jón segir ekkert til fyrirstöðu að fara af stað með verkefnið annað en leyfisgjöf frá ráðuneytinu. „Innflutningi á nýju kúakyni var hafnað árið 2001 en það er okkar skoðun að síðan þá hafi aðstæður breyst. Krafan um hagræðingu í landbúnaði hefur aukist mjög undanfarin ár, kúabú hafa stækkað og skuldir þeirra aukist. Þess vegna er afar mikilvægt að skoða leiðir til að auka hagræðingu í rekstri þeirra og það er okkar skoðun að norska kúakynið sé í hagrænu tilliti mun betra en það íslenska.“

Jón leggur mikla áherslu á að ef leyfi fæst fyrir innflutningi yrði um að ræða tilraunaverkefni. „Þetta yrði innflutningur í litlum mæli og það er ekki fyrr en að tilrauninni lokinni að það er hægt að fara að ræða um breytingar. Það gæti gerst eftir um það bil fimm ár frá því að tilraunin með norsku kýrnar hæfist.“


back to top