Stjórn og starfsmenn fengu klapp á bakið

Aðalfundur Auðhumlu svf. var haldinn á Hótel Selfossi föstudaginn 3. apríl sl. Full mæting fulltrúa var eða alls 81 fulltrúi með atkvæðisrétt. Miklar umræður urðu um reikninga Auðhumlusamstæðunnar og skýrslu stjórnar. Þrátt fyrir þungt rekstrarár og tap á rekstri, fengu stjórn og starfsmenn klapp á bakið fyrir sín störf enda hefur reynt mikið á við þær aðstæður sem fyrirtækjunum Auðhumlu og MS er búin um þessar mundir.
Fyrir fundinum lág tillaga um fækkun fulltrúa í fulltrúaráðinu þannig að 15 innleggjendur væru á bak við hvern fulltrúa. Samþykkt var að 12 innleggjendur væru að baki hverjum fulltrúa með viðeigandi breytingum á samþykktum félagsins. Gildir þessi fækkun við kjör á deildarfundum á næsta ári. Tillaga um að skipa rannsóknarhóp til að skoða sérstöðu íslenskrar mjólkur var vísað til stjórnar til frekari vinnu.

Í upphafi fundar minntist formaður félagsins tveggja félagsmanna er látist hafa, Jóns Kristinssonar, bónda og listamanns frá Lambey í Fljótshlíð sem var skoðunarmaður reikninga um árabil og Odds Gunnarssonar, bónda á Dagverðareyri, sem var fulltrúi og varaskoðunarmaður.


back to top