Stjórnarfundur HS 6/2012

Fundargerð
Stjórnarfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands

Stjórnarfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands var haldinn í fundarsal Búnaðarsambands Suðurlands, þann 7. nóvember 2012, kl. 17:30. Fundinn sátu: Sveinn Steinarsson, María Þórarinsdóttir, Ólafur Þórisson, Sigríkur Jónsson, Katrín Ólína Sigurðardóttir, Þórdís Erla Gunnarsdóttir og Halla Eygló Sveinsdóttir.

Dagskrá:
1. Fundarsetning
2. Félagsfundur undirbúinn

1. Fundarsetning
Sveinn Steinarsson setti fundinn og bauð menn velkomna. Höllu Eygló falið að rita fundargerð.

2. Félagsfundur undirbúinn
Á haustfundinum 17. október síðast liðinn var ákveðið að boða til félagsfundar fyrir aðalfund Félags hrossabænda sem verður þann 16. nóvember. Stjórnin hittist því til að skipuleggja fundinn. Skipt verður í vinnuhópa þar sem skýrsla starfshópsins verður til umfjöllunar og síðan önnur mál. Í viðhengi við fundargerð er úrdráttur úr skýrslu starfshópsins, sem dreift verður á fundinum.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 19:30.

/Halla Eygló Sveinsdóttir
Viðauki:
Punktar sem starfshópurinn er sammála um:

• Hópurinn er samstíga varðandi það að ef nauðsyn krefur að fækka kynbótahrossum á LM þá virðist einboðið að fækka helst og fyrst í flokki 5v. hryssna sem voru alls 54 á LM2012 (26% sýndra kynbótahrossa á LM, sjá fylgigögn um hlutdeild flokka á LM). Næst stærsti flokkurinn á LM2012 var 4v. hryssur alls 35 (17% hlutdeild). Mætti e.t.v. hækka lágmörk fyrir næsta LM í flokki 5v. hryssna? Sjónarmið í þessu máli m.a.:

– Einföld og jöfn skipting milli allra aldursflokka þýðir 12,5% hlutdeild hvers flokks.

– Þeir flokkar sem víkja mest frá hnífjafnri skiptingu á síðasta LM eru: 5v. hryssur (+13,5%, þ.e. umfram 12,5% og alls 26%), 4v. hryssur (+4,5% alls 17%),  7v. og eldri hryssur (-7,5% alls 5%), 4v. hestar (-5,5% alls 7%), 7v. og eldri hestar (-5,5% alls 7%).

• E.t.v. endurspeglar núverandi hlutdeild flokka á LM að nokkru leyti það sem áhorfendur/ræktendur almennt helst vilja sjá á kynbótabrautinni; þ.e. ungu hrossin og vonarstjörnur framtíðar. Að þessu leyti er því ekki óeðlilegt að kúrvan þynnist út til endanna, í flokkum elstu hrossa – sem jafnframt eiga mörg hver kost á að koma fram í keppnisgreinum mótanna.

• Hæfileikadómur á LM skuli ætíð framkvæmdur með sama hætti og formi og á forsýningu /héraðssýningu.
Rök með þeirri niðurstöðu m.a.:
– Sömu vinnubrögð skyldu viðhöfð á LM og forsýningum til að tryggja samanburðarhæfni og stöðlun þeirra gagna sem svo eru nýtt til útreiknings á kynbótamati.

•  Hópurinn er áfram um að staðla og huga betur að starfi þula í dómi á kynbótasýningum LM. Fram komin rök því til stuðnings:
– Yfrið nóg ætti að vera að koma upplýsingum á framfæri á tveimur tungumálum (íslenska/enska). Sé óskað fleiri tungumála verði slíkt að vinnast t.d. með sérstakri útsendingartíðni í útvarpi.
– Sífelld síbylja þula þreytir og truflar upplifun áhorfenda og starf sýnenda.
Gæta verður sérstaklega að því að kynningar og orðaval þula sé svo hlutlaust sem verða má í dómi; þ.e. að einu sé ekki hampað á kostnað annars á grunni staðkunnug-leika og/eða smekks þular.
Góðar og þarfar ábendingar sem geta minnkað líkur á óhöppum í kynbótasýningum.

• Hópurinn telur mikilvægt að kynbótadómarar séu stöðugt vakandi fyrir grófri reiðmennsku/grófum ábendingum og taki á slíkum málum af festu svo sem leiðari um framkvæmd kynbótadóma mælir fyrir um. Sérstaklega beri að gjalda varhug við tilraunum til skeiðsýninga þar sem skeiðgeta virðist lítil/engin.

• Tillaga:
Sú hugmynd fékk góðan byr innan hópsins hvort ekki væri mögulegt að Fengur héldi utan um þær tölur sérstaklega sem breytast á yfirliti? Þ.e. að það komi sérstaklega fram á dómblaði hvaða tölur breytast og hvernig. Hópurinn telur þetta hafa augljóst upplýsingagildi fyrir ræktendur og geti t.a.m. unnið nokkuð á móti svo nefndri einkunnasöfnun.

Greinargerð:
Nefndin telur að skynsamlegt væri að yfirfara verkferla í dómpalli á yfirlitssýningum til að koma í veg fyrir að „vafasamar“ athugasemdir úr fordómi standi eftir óbreyttar þegar dómar hækka á yfirliti; þ.e. athugasemdir sem eru lýsandi fyrir fyrri einkunn en skjóta skökku við eftir breytingar á yfirliti.
– Ef sú hugmynd fær brautargengi að allar breytingar á yfirliti komi fram á dómblaði þá minnkar hætta á áðurnefndum mistökum að öllum líkindum. Þá þarf ritari væntanlega að haka sérstaklega við í Feng að um sé að ræða breytingu á yfirliti og þá meiri líkur á að athygli starfsfólks í dómpalli sé vakin á athugasemdum sem ekki styðja fallinn dóm.

• Það er útbreidd skoðun í hópnum að í kynbótadómi, svo sem hann hefur þróast, sé á stundum of fast tekið á smávægilegum hnökrum í útfærslu sýninga, minniháttar taktfeilum  eða öðrum þeim smálegum atriðum sem ekki snerta auðsýnilega getu gripsins eða kynbótagildi. Með öðrum orðum að kynbótadómurinn dragi stundum of mikinn dám af keppni. Ef eðli og geta gripsins sýnir sig þá ættu smávægilegir hnökrar ekki að hafa úrslitaáhrif á dóm.

• Tillaga :
Það er almennt skoðun hópsins að breyta þyrfti vinnulagi á yfirlitssýningum á þann veg að hækkanir séu lesnar upp jafnharðan og þær verða til í dómpalli. Af þessu hlytist augljóst hagræði fyrir hest og knapa og gerði yfirlitssýningar einnig áhorfendavænni.

• Það er útbreidd skoðun í hópnum að dómarar verði sífellt að halda vöku sinni gagnvart svo nefndri hraðadýrkun; þ.e. að yfirhraða gangtegunda sé illu heilli of mikið hampað í einkunnum á kostnað taktöryggis, skrefstærðar, svifs (þar sem það á við) og mýktar.

• Nefndin er mjög áfram um bætt vinnuumhverfi og vinnuramma kynbótadómara. Vísað er til þarfar á bættum skilyrðum og aðbúnaði í dómpöllum. Umræða fór fram um langa vinnudaga og álag (óhóflegt?) á dómara, ekki síst á LM. Er e.t.v. æskilegt að reyna að þoka hefðbundnum vinnudegi á kynbótasýningum meira í átt að 8-9 stunda vinnu?
Áverkar og skilgreining þeirra. ( hugmyndir til bóta á því sviði)  Verður til umfjöllunar á aðalfundinum Er  eitthvað í kerfinu sem er ábótavant,of mikið verið að skella skuldinni bara á knapa þó þar megi kannski margt fara betur. Þarf að skoða áherslu í sýningum í heild sinni ?
HS  beinir  því til aðalfundar FHB að stóðhestar sem koma til kynbótadóms þurfa að  hafa vottorð dýralæknis upp á eistnaheilbrigði og þegar þeir koma fyrst til dóms.


back to top