Styrkjakerfi til bænda mun breytast

Lítið þokaðist í gærkvöld og nótt í Doha-viðræðunum svokölluðu hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni í Genf í Sviss. Þar er nú reynt að útkljá ýmis deilumál um alþjóðaviðskipti svo sem um tollfrjálsa verslun með landbúnaðarvörur. Aðeins er tímaspursmál hvenær breyta þarf styrkja- og niðurgreiðslukerfi landbúnaðarins á Íslandi, segir Sigurgeir Þorgeirsson, aðalfulltrúi Íslands í viðræðunum.

Ráðherrar stærstu aðildarlandanna sjö funduðu fram undir morgun en án árangurs. Embættismenn segja andrúmsloftið dauft og eru ekki bjartsýnir á að samkomulag náist.


Þróunarríkin vilja fá að selja landbúnaðarafurðir sínar til iðnríkjanna án tolla en á móti krefjast iðnríkin þess að fá að selja ýmsar fullunnar vörur og þjónustu til þróunarríkjanna. Ráðherrarnir hittast aftur síðdegis.


Sigurgeir Þorgeirsson, ráðuneytisstjóri í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, tekur þátt í viðræðunum í Genf. Hann segir að nokkur gremja sé á meðal fulltrúa minni ríkja vegna þess að sendifulltrúar sjö stærstu ríkjanna loka sig af. Hann telur að þrátt fyrir erfiða byrjun sé ekki hægt að útiloka að tímamótasamningur náist í kvöld, oft hafi viðræður á síðustu stundu reynst árangursríkar. Nú stendur aðallega á þróunarríkjunum, segir Sigurgeir. Þau vilji ekki leyfa tollfrjálsan innflutning á vörum og þjónustu frá iðnríkjunum.


Talið hefur verið að nú sé síðasta tækifærið til að blása lífi í Doha viðræðurnar. Sigurgeir segir að náist samkomulag ekki nú, geti það vissulega tafið ferlið um nokkur ár en líklega sé aðeins tímaspursmál hvenær viðskipti á milli landa verða opnuð frekar. Ísland er í hópi ríkja sem vilja fara varlega í að lækka tolla á landbúnaðarafurðir og fella niður styrki til landbúnaðar.


Sigurgeir er þó sannfærður um að þegar samningar náist og tollar lækki, verði gerðar miklar breytingar á núverandi styrkjakerfi hér á landi. Hann á ekki von á að styrkir til landbúnaðar verði minnkaðir í framtíðinni en telur að taka verði upp svokallaðar grænar greiðslur sem eru greiðslur til landbúnaðar sem ekki eru bundnar við ákveðnar afurðir. Viðræðunum í Genf lýkur á morgun.



 


back to top