Suðurland bragðast best
„Suðurland bragðast best“ er heitið á málþingi sem haldið verður 30. janúar á Hótel Selfossi. Markmið málþingsins er að vekja athygli á framboði og nýsköpun í matvælaframleiðslu á Suðurlandi og að hvetja Sunnlendinga til þess að nýta matvæli úr heimabyggð. Þá er átt við heimamenn alla, en ekki síst þá sem stunda veitingarekstur og ferðaþjónustu.
Kynnt verða fjölbreytt verkefni einstaklinga og samstarfshópa í því skyni að miðla af reynslu þeirra sem eru að framleiða og markaðsetja matvæli víða um land. Má þar nefna verkefnin Beint frá býli, Matarkista Skagafjarðar, Stefnumót hönnuða og bænda, Vörumerkjastjórnun, Heimaframleiðsla o.fl.
„Í tengslum við málþingið verður sýningarsvæði þar sem matvælaframleiðendur á Suðurlandi kynna vörur sínar fyrir gestum. Þess er vænst að málþingið ásamt kynningunum varpi ljósi á það sem er á döfinni í matvælaframleiðslu, efli tengsl milli framleiðenda og neytenda og verði hvatning fyrir frumkvöðla til nýsköpunar. Vaxtasamningur Suðurlands og Vestmannaeyja hefur forystu um málþngið.
Undirbúning annast þær Sædís Íva Elíasdóttir og Steingerðar Hreinsdóttir, verkefnastjórar hjá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands og Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi Uppsveita Árnessýslu,“ segir í fréttatilkynningu um málþingið.