Sumarhátíð á Rangárbökkum
Í dag, fimmtudaginn 13. ágúst, hefst Sumarhátíð á Rangárbökkum sem standa mun alla helgina. Fyrir hátíðinni standa Rangárbakkar ehf. en hluti af hátíðinni eru hin árlegu Töðugjöld á Hellu sem unnið hefur sér fastan sess meðal heimamanna. Á Sumarhátíðinni verður margt til skoðunar og skemmtunar og munu hin ýmsu hestatengdu atriði eflaust vekja mikla athygli, s.s. bjórreiðin, kappreiðar, smali, íslandsmót í járningum ofl. ofl.
Afurðir bænda, heimilisiðnaður ýmiskonar sem og afurðir fyrirtækja tengdar landbúnaði verða að sjálfsögðu til sýnis og kynning á vörum g þjónustu sem finna má í héraðinu verða gerð ítarleg skil.
Ýmis skemmtiatriði verða að sjálfsögðu í boði, Simmi og Jói sprella með gestum og alvöru sveitaball með Pöpunum verður haldið í Rangárhöllinni á laugardagskvöldinu fyrir gesti sumarhátíðarinnar svo eitthvað sé nefnt.
Ítarlega dagskrá Sumarhátíðarinnar og nánari upplýsingar má finna á slóðinni www.rangarhollin.net og ljóst er að þarna er ýmislegt áhugavert um að vera sem bændur og búalið ættu að skoða vel.