Svarðatilraunir LBHÍ
Landbúnaðarháskóli Íslands heldur úti svarðatilraunum á nokkrum stöðum á landinu. Í svarðatilraununum er annars vegar könnuð lifun einstakra yrkja eftir vetur og svo eru yrkin uppskerumæld. Um mjög merkar tilraunir er að ræða sem skipta verulegu máli fyrir bændur.
Á Suðurlandi eru svarðatilraunir á Heiðarbæ í Þingvallasveit, Tilraunabúinu á Stóra-Ármóti og á Stóru-Hildisey í A.- Landeyjum. Auk þess eru sambærilegar tilraunir á Korpu, Hvanneyri, Hólabaki í Húnavatnssýslu, Möðruvöllum í Hörgarárdal og á Kvíabóli í Þingeyjarsýslu.
Um er að ræða s.k. blokkatilraunir sem þýðir að á hverjum stað fyrir sig er hverju yrki sáð í þrjá reiti. Hver reitur er metinn sjálfstætt og uppskerumældur tvisvar yfir sumarið af rannsóknafólki Landbúnaðarháskólans.
Á hverjum stað er sáð nokkrum yrkjum af helstu nytjajurtum bænda eða tegundum sem taldar eru áhugaverðar til ræktunar hér á landi. Þannig er sáð á hverjum stað mismunandi tegundum af vallarfoxgrasi, vallarsveifgrasi, vallarrýgresi, axhnoðapunti, hávingli, sandfaxi, rauðsmára, hvítsmára.
Niðurstöðurnar úr þessum svarðatilraunum liggja svo m.a. til grundvallar hvaða tegundum mælt er með til ræktunar hérlendis og birtar eru í ritinu Nytjaplöntur á Íslandi. Ritið er endurskoðað árlega og kemur út í byrjun hvers ár, hin síðari ár eingöngu sem vefrit. Auk yfirlits yfir þau yrki sem mælt er með í landbúnaði er einnig yfirlit yfir yrki sem mælt er með í garðrækt og í landgræðslu.
Nytjaplöntur á Íslandi 2007 auk fyrri útgáfa er aðgengilegt á vef Landbúnaðarháskóla Íslands undir liðnum „útgáfa“ en einnig má nálgast það með því að smella hér.