Svínabændur uggandi um sinn hag

Svínabændur óttast mjög um rekstur búa sinna næstu misserin. Framleiðslan er of mikil en þeir mega ekki bindast samtökum um að draga úr framleiðslu. Til að jöfnuður komist á markað með svínakjöt þyrfti Arion banki að leggja niður annað af tveimur svínabúum sem bankinn hefur yfirtekið. Þetta segir Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands. Mikið tap er núna á rekstri svínabúa í landinu.

Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, bjó einhverju sinni til slagorðið „Frá haga til maga“ en það átti að endurspegla framleiðsluferil búvöru sem hefst hjá bónda og endar hjá neytanda. Segja má að Arion banki sé núna kominn í rekstur sem endurspegli þetta allt, þ.e. framleiðslu, úrvinnslu og smásölu. Bankinn hefur yfirtekið tvö svínabú, í Brautarholti á Kjalarnesi og Hýrumel í Borgarfirði. Hann á einnig í gegnum Haga kjötvinnsluna Ferskar kjötvörur og bankinn hefur einnig yfirtekið Haga sem reka matvöruverslanirnar Bónus og Hagkaup.


Hætta á að greinin leggist af
Keppinautar Arion banka í svínarækt, kjötvinnslu og matvöruverslun eiga því talsvert mikið undir því hvaða ákvarðanir bankinn tekur um framtíð þeirra fyrirtækja sem hann hefur yfirtekið. Keppinautar á matvörumarkaði spyrja hvort Hagar verði áfram reknir sem eitt fyrirtæki eða hvort þeim verði að einhverju leyti skipt niður. Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra lét á síðasta ári falla ummæli í þá veru að ekki ætti að reka stórfyrirtæki á borð við Haga með óbreyttu sniði.
Staðan í svínarækt er þannig að sumir bændur ganga svo langt að segja að raunveruleg hætta sé á að greinin leggist af. Verð til bænda hefur lækkað jafnt og þétt og enn er mikill þrýstingur á verðlækkun vegna þess að framleiðslan er enn of mikil.


Svínabúið í Brautarholti var tekið til gjaldþrotaskipta fyrir nokkrum dögum. Guðrún Helga Brynleifsdóttir skiptastjóri segir að Arion banki hafi lagt fram tilboð um yfirtöku á búinu. Eftir sé að taka formlega afstöðu til þess. Bankinn er með tæplega eins milljarðs veðkröfur í búið. Hún segir að ekki séu uppi áform um annað en að halda áfram rekstri búsins. Svínabúið á Hýrumel mun einnig vera á leið í gjaldþrot.


Arion banki á ekki marga góða kosti varðandi framtíð þessara búa. Í dag eru búin rekin með miklu tapi. Almennt eru búin í vandræðum með að losna við allt það kjöt sem er framleitt og því er freistandi að reyna að örva söluna með frekari verðlækkunum. Það kemur hins vegar niður á öðrum sem eru í þessum rekstri.


Svínabændur spyrja sig því þeirrar spurningar hvernig bankinn ætlar að haga rekstri búanna á næstu misserum. Mun hann reyna að tryggja sölu með því að vera með tilboð á framleiðslunni? Og eins spyrja menn hvort bankinn ætli áfram að reka tvö svínabú eða hvort annað verði lagt niður.


Í hnotskurn
» Svínabúið í Brautarholti varð gjaldþrota árið 2003 og síðan aftur núna.
» Búist er við að svínabúið á Hýrumel verði lýst gjaldþrota á næstu dögum.
» Sala á kjöti dróst saman um 6,4% í fyrra.


Morgunblaðið 29. mars 2010, Egill Ólafsson egol@mbl.is


back to top