Sviptingar í framleiðslu og markaðssetningu mjólkur vestanlands
Segja má að nokkur tíðindi hafi orðið í mjólkurframleiðslu á Vesturlandi undafarið. Nýverið urðu eigendaskipti á stórbýlinu Þverholtum á Mýrum þar sem eitt stærsta kúabú á Vesturlandi hefur verið rekið um nokkurra ára skeið. Nýr eigandi að Þverholtabúinu er einkahlutafélagið Þverholtabúið en áður var búið í eigu eignarhaldsfélags sem meðal annars Jóhannes Kristjánsson athafnamaður, oft kenndur við Fons, í Lúxemborg átti hlut í. Stærstu eigendur Þverholtabúsins ehf. eru Daði Einarsson bóndi frá Lambeyrum í Dölum og bróðir hans Valdimar Einarsson sem hefur verið búsettur á Nýja-Sjálandi um árabil, en einnig koma nokkrir minni hluthafar að félaginu. Daði er sem kunnugt er faðir Ásmundar Einars Daðasonar, alþingismanns.
Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Þverholtum undanfarin ár. Tvær fjósbyggingar frá 2008 fyrir samtals 310-320 kýr eru í Þverholtum og er aðstaða þar til að reka stærsta og fullkomnasta kúabú á Íslandi ef mannvirki væru fullnýtt. Í fjósunum eru fimm mjaltaþjónar og eru fjórir þeirra í gangi nú. Í dag eru mjólkandi kýr í Þverholtum 182. Kvóti er til fyrir innan við helming af núverandi framleiðslugetu.
Til annarra tíðina verður einnig að telja að allur tækjabúnaður Vesturmjólkur er nú auglýstur til sölu á heimasíðu fyrirtækisins. Ekki hafa verið framleiddar vörur hjá fyrirtækinu frá því í janúar síðastliðnum og var starfsmönnum sagt upp um mánaðarmótin janúar-febrúar síðastliðinn. Ástæðan var sögð skortur á fjármagni til rekstar. Fyrirtækið framleiddi og markaðssetti vörur undir merkinu Baula-Beint úr sveitinni og var stofnað snemma árs 2010. Fyrstu vörur fyrirtækisins komu á markað í júní á síðasta ári en fyrirtækið framleiddi m.a. jógúrt og sýrðar mjólkurvörur.
Á heimasíðunni eru auglýst tæki stöðvarinnar og má þar nefna mjólkurbíl, sendibíl, tanka, pökkunarvélar og ýmis tæki til mjólkurvinnslu eins og gerilsneyðingar- og fitusprengingartæki. Rekstur mjólkurstöðvarinnar var í húsnæði í Borgarnesi sem áður hýsti Borgarnes kjötvörur en húsnæðið er í eigu Byggðastofnunar.
Vesturmjólk var stofnuð af Bjarna Bærings Bjarnasyni bónda að Brúarreykjum í Borgarfirði, Axel Oddssyni bónda á Kverngrjóti í Dölum og áður nefndum Jóhannesi Kristinssyni, fyrrum aðaleiganda Þverholtabúsins.