Systur í fyrsta sinn á Búnaðarþingi

Á nýliðnu Búnaðarþingi sátur þar systur í fyrsta sinn í sögu þingsins. Þetta eru þær Guðrún Lárusdóttir í Keldudal í Hegranesi og Fanney Ólöf Lárusdóttir á Kirkjubæjarklaustri II. Fanney Ólöf, sem er ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands ásamt því að vera bóndi, situr sitt þriðja þing en Guðrún er í fyrsta sinn fulltrúi á Búnaðarþingi. Þær feta í fótspor móður sinnar, Sólrúnar Ólafsdóttur, sem var eitt sinn í stjórn Bændasamtakanna og sótti þar af leiðandi Búnaðarþing.

„Þegar foreldrar okkar hættu búskap árið 2003 tók ég við og hef komið að félagsmálum bænda síðan. Ég hef mikinn áhuga á félagsmálunum og er ráðunautur Búnaðarsambands Suðurlands og sit í stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda. Ég hef gaman af þessu og fyrir mig hefur það mikla þýðingu að geta haft einhver áhrif,“ útskýrir Fanney Ólöf.



Konur í landbúnaði sýnilegar
Systurnar eru báðar búfræðikandídatar frá Hvanneyri og láta að sér kveða þegar kemur að félagsmálum bænda svo eftir er tekið. Guðrún bauð sig fram til stjórnar Bændasamtakanna nú á Búnaðarþingi en Fanney Ólöf frestaði því um stund vegna anna.


“Mér finnst mikilvægt að konur í landbúnaði séu sýnilegar og að þær taki ábyrgð. Þess vegna bauð ég mig fram til stjórnar nú en gekk ekki en ég mun halda ótrauð áfram í félagsmálunum,“ segir Guðrún sem er formaður félags kúabænda í Skagafirði og Fanney Ólöf bætir við:


„Ég hef mikinn áhuga á stjórnarkjöri í Bændasamtökunum en ákvað að sitja hjá nú og bíða þar til börnin mín verða eldri en ég á þrjú börn á aldrinum tveggja til sjö ára. Það er mikið starf hjá Búnaðarsambandinu og ég vil geta sinnt mínum störfum vel þegar ég fer í þau þannig að ég legg hugmyndir um stjórnarkjör til hliðar enn um stund.“


back to top