Telur hlutverk BÍ of víðtækt við stjórnsýslu landbúnaðarmála
Ríkisendurskoðun telur að stjórnvöld hafi falið Bændasamtökum Íslands of víðtækt hlutverk við stjórnsýslu landbúnaðarmála og að endurskoða þurfi fyrirkomulagið. Þá verði stjórnvöld að efla eftirlit sitt með framlögum til landbúnaðar.
Alþingi og stjórnvöld hafa falið Bændasamtökum Íslands framkvæmd margvíslegra stjórnsýsluverkefna á sviði landbúnaðarmála og eftirlit með þeim. Meðal annars taka samtökin ákvarðanir um opinberar greiðslur til bænda, annast útreikning þeirra og afgreiðslu. Einnig sinna samtökin ráðgjöf við stjórnvöld og fulltrúar þeirra sitja í nefndum sem taka ákvarðanir um landbúnaðarmál. Þá annast samtökin áætlana- og hagskýrslugerð um landbúnað.
Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að stofnunin telur óæskilegt að Bændasamtökin annist bæði framkvæmd stjórnsýsluverkefna og eftirlit með þeim. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið er hvatt til að hafa frumkvæði að endurskoðun fyrirkomulagsins. Þá telur Ríkisendurskoðun að ráðuneytið þurfi að fylgjast betur en nú með hvort ráðstöfun ríkisframlaga til landbúnaðar sé í samræmi við lög, reglur og samninga og skili þeim árangri sem til er ætlast.
Hingað til hefur ráðuneytið nýtt gögn og þekkingu um landbúnað sem Bændasamtökin búa yfir. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf ráðuneytið að tryggja að það hafi ávallt greiðan aðgang að upplýsingum um landbúnaðarmál, t.d. með því að stofnun á þess vegum afli og vinni úr slíkum upplýsingum. Þá telur Ríkisendurskoðun óæskilegt að samtökunum sé falið að gera hagskýrslur um landbúnað enda verði óhlutdrægni slíkra skýrslna að vera hafin yfir vafa.
Samkvæmt lögum annast Matvælastofnun ýmsa stjórnsýslu á sviði landbúnaðarmála. Stofnunin hefur að hluta til útvistað þessum verkefnum til Bændasamtakanna með samningi. Að mati Ríkisendurskoðunar væri æskilegt að hún annaðist þau sjálf.
Loks telur Ríkisendurskoðun að samningar stjórnvalda við Bændasamtökin þurfi að kveða skýrt á um hvort og þá að hve miklu leyti fjárreiðulög, stjórnsýslulög, upplýsingalög og lög um opinber innkaup gildi um þau verkefni sem þar er mælt fyrir um.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið tekur í athugasemdum sínum við skýrsluna ekki undir þá almennu skoðun Ríkisendurskoðunar að framsal verkefna samkvæmt búnaðarlögum til Bændasamtakanna sé óæskilegt og feli í sér hættu á hagsmunaárekstrum. Þvert á móti geti verið sterk rök fyrir því að þetta sé árangursríkt fyrirkomulag. Ráðuneytið segir að það sé að efla eftirlitshlutverk sitt og tekur undir að bæta þurfi hagsýslugerð í landbúnaði þannig að tryggja megi óhlutdræga og vandaða hagsýslusöfnun.
Matvælastofnun tekur hins vegar í athugasemdum sínum undir ábendingu Ríkisendurskoðunar um að mikilvægt sé að Matvælastofnun og sjávarútvegs‐ og landbúnaðarráðuneytið leggi sem fyrst mat á hvort rétt sé að stofnunin taki alfarið yfir verkefni á sínu ábyrgðarsviði.
Bændasamtök Íslands sendu umsögn til Ríkisendurskoðunar þegar skýrslan var í vinnslu. Þar er bent á að í drögum skýrslunnar er ekki fundið að stjórnsýslulegri framkvæmd BÍ heldur snúist athugasemdir stofnunarinnar einkum að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og Matvælastofnun.