Niðurstöður heysýna 2000
Nú liggja flestar niðurstöður úr heysýnum frá Suðurlandi vegna uppskeru ársins 2000 fyrir. Alls eru það tæplega 700 sýni sem liggja til grundvallar meðaltalstölum þeim sem kynntar eru hér á eftir. Meðaltalstölurnar bera það með sér að heyin eru orkurík og tiltölulega lítill breytileiki í orkugildi. Nær öll heysýnin eru hirðingarsýni og langflest úr rúlluheyi. Ef litið er á heildarsamanburð milli tveggja síðustu ára og viðmiðunargilda kemur eftirfarandi í ljós:
Tafla 1. Niðurstöður heysýna – meðaltöl | |||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Ár | Fj. sýna | FEm/kg | Prót. g. | AAT g. | PBV g. | Ca g. | P g. | Mg g. | K g. | Na g. | Þurr- efni,% |
Gott hey | 0,80 | 150 | 85 | 1 | 4,0 | 3,0 | 2,1 | 18 | 1,4 | ? | |
2000 | 678 | 0,82 | 152 | 77 | 19 | 3,8 | 3,3 | 2,2 | 18 | 1,2 | 62 |
1999 | 830 | 0,80 | 152 | 71 | 30 | 3,6 | 3,3 | 2,1 | 17 | 1,2 | 56 |
Athygli vekur að þurrefni er hærra en árið 1999 sem stafar fyrst og fremst af tíðarfari viðkomandi sumars. Frá og með uppskeru 2000 voru próteingildi á AAT og PBV reiknuð út frá niðurstöðum tilrauna á St-Ármóti um mismunandi niðurbrot próteins í vömb miðað við mismunandi þurrkstig við hirðingu. Áður var miðað við fasta tölu (80% niðurbrot) í öllu rúlluheyi. Út frá þeim niðurstöðum sem fengust úr tilrauninni á St-Ármóti eru reiknaðar niðurstöður á AAT og PBV-gildum mun öruggari en áður var.
Sýnum hefur fækkað nokkuð milli ára sem stafar af tvennu, hækkandi verði sýna og einnig hefur sýnum fækkað á hverjum bæ.
Steinefnatölur eru í heild vel viðunandi, þó er eins og áður allnokkur breytileiki milli búa og svæða.
Ef litið er á samanburð milli 1. og 2. sláttar og grænfóðurs, kemur eftirfarandi í ljós:
Tafla 2. Heygerðir árið 2000 | |||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Hey- tegund | Fj. sýna | FEm/kg | Prót. g. | AAT g. | PBV g. | Ca g. | P g. | Mg g. | K g. | Na g. | Þurr- efni,% |
1. sláttur | 566 | 0,81 | 148 | 76 | 17 | 3,6 | 3,3 | 2,1 | 18 | 1,1 | 63 |
2. sláttur | 69 | 0,81 | 174 | 81 | 33 | 4,7 | 3,7 | 2,8 | 19 | 1,3 | 70 |
Grænfóður | 43 | 0,87 | 162 | 83 | 16 | 4,5 | 2,9 | 2,1 | 22 | 3,5 | 32 |
Athygli vekur að þurrefni í hánni er að meðaltali hærra en í fyrri slætti og kemur þar til mjög gott tíðarfar á Suðurlandi síðasta sumar. Tölugildin fyrir grænfóður eru mjög góð, þó er Kalí (K) allvíða heldur hátt og væntanlega kemur þar til frekar mikill kalíáburður á grænfóður en yfirleitt hafa menn notað Græði 5 eða ígildi hans á grænfóður og vekja þessar niðurstöður upp spurningar um endurskoðun á efnainnihaldi þess áburðar sem mælt hefur verið með á grænfóður fram til þessa.
Í heild má segja að niðurstöður heysýna frá liðnu sumri séu í samræmi við skilyrði til heyskapar enda var sumarið mjög gott ef litið er á veðráttuna. Eins og vænta mátti hafa þessi miklu heygæði komið fram m.a. í mjög mikilli mjólkurframleiðslu á kúabúunum það sem af er vetri.
Nánari upplýsingar veitir Runólfur Sigursveinsson, rs@bssl.is