Samstarfssamningur HS og LbhÍ
Samstarfssamningur
Landbúnaðarháskóla Íslands
og
Hrossaræktarsamtaka Suðurlands
Hrossaræktarsamtök Suðurlands (hér eftir nefnt „HS“) og Landbúnaðarháskóli Íslands (hér eftir nefnt „LbhÍ“) (sameiginlega nefndir „aðilar“), gera með sér eftirfarandi samstarfssamning:
1 gr. Markmið samningsins
1.1 Markmið
Aðilar hafa sett sér það markmið að hefja samstarf sem stuðla á að aukinni fræðslu og menntun á sviði hrossaræktar. Einnig er markmið samningsins að stuðla að rannsóknum á sviði hrossaræktar og hestahalds. Er það gert í því augnamiði að auka skilning og áhuga á hrossarækt og stuðla að framförum í greininni með sérstaka áherslu á starfssvæði HS.
1.2 Menntun
Hér er um að ræða námskeiðahald á formi sí- og endurmenntunar fyrir hrossaræktendur á starfssvæði HS þar sem samningsaðilar geta staðið saman að námskeiðum, ásamt hugmyndavinnu og greiningu á því hvers konar fræðslu er þörf. Stefnt skal að því að halda a.m.k. 2 námskeið á Suðurlandi á ári þar sem HS niðurgreiðir námskeiðskostnað fyrir félagsmenn sína en námskeiðin verði opin öðrum gegn fullu gjaldi. Félagsmenn HS hafi þó forgang ef kemur til þess að takmarka þurfi þátttöku.
1.3 Rannsóknir
Þessi samningur á einnig við um samstarf á sviði rannsókna í hrossarækt og hestahaldi þar sem samningsaðilar miði að því að standa saman að rannsóknum á fyrrgreindum sviðum. Gæti það varðað hugmyndavinnu, starfskrafta, öflun fjármagns og /eða aðstöðu, gagnasöfnun og kynningu á niðurstöðum. HS stefnir að því að styrkja a.m.k. eitt rannsóknaverkefni í hrossarækt við LbhÍ á ári skv. sérstökum samningi þar um, sbr. 2.1 þar sem fram kæmi fjárhæð, skilyrði og annað er viðkemur verkefninu. Styrkur þessi væri fyrst og fremst hugsaður til námsverkefna með sunnlenska skírskotun.
1.4 Forsendur markmiða
Þar sem LbhÍ stundar nú þegar rannsóknir er varða hrossarækt og almennt hestahald og sinnir kennslu á þessu sviði þá er skólanum augljós akkur í efldu samstarfi við HS en mjög stór hluti íslenskra hrossaræktenda og hrossa eru einmitt á starfssvæði samtakanna. Ennfremur stendur það í lögum HS að sambandið skuli vinna ötullega að ræktun íslenska hestsins og glæða áhuga fyrir hrossarækt og hestamennsku með öflugu fræðslu- og útbreiðslustarfi..
2 gr. Framkvæmd og gildistími
2.1 Gildissvið samningsins
Samningur þessi nær til samstarfs á sameiginlegum sviðum aðila og í raun hvar svo sem hagsmunir og áhugasvið aðila liggja saman. Eftir því sem við á skal á grundvelli þessa samnings gera sérstakan samning um einstök verkefni þar sem markmiðum og formi þeirra er nákvæmlega lýst.
2.2 Samstarfsnefnd
Til að vinna að markmiðum samningsins hafa aðilar ákveðið að setja á fót sérstaka samstarfsnefnd skipaða 2 fulltrúum frá hvorum aðila. Þessi samstarfsnefnd hefur umsjón með og fylgir eftir markmiðum samnings þessa.
2.3 Gildistími
Samningurinn gildir til 31.12.2009 en framlengist sjálfkrafa um eitt ár í senn hafi honum ekki verið sagt upp með tveggja mánaða fyrirvara.
Hvor aðili um sig getur sagt samningnum upp með tveggja mánaða fyrirvara.
Samningur þessi er gerður í tveimur samhljóða eintökum. Skal Landbúnaðarháskóli Íslands halda einu og Hrossaræktarsamtök Suðurlands einu.
Selfossi, 16. ágúst 2007.
F.h. Landbúnaðarháskóla Íslands F.h. Hrossaræktarsamtaka Suðurlands
Ágúst Sigurðsson Hrafnkell Karlsson
Rektor Formaður
(sign.) (sign.)