Tilkynning frá hrossaræktarráðunauti BÍ

Varla hefur hún farið framhjá nokkrum hestamanni sú kvefpest sem þessa dagana herjar á hrossastofninn. Ljóst er að pestin er mun alvarlegri en í fyrstu var talið og virðist hrossum mjög hætt við að slá niður ef ekki er varlega farið, þó menn telji einkenni horfin.

Hinar hefðbundnu vor- og héraðssýningar kynbótahrossa munu á næstunni fara í gang af fullum þunga svo sem vant er á þessum árstíma. Ekki hefur á þessu stigi málsins verið ákveðið með neinar breytingar á fyrirliggjandi dagskrá sýninganna. Vil ég því hvetja þá sem enn hafa sloppið við pestina eða sem hafa hross sem náð hafa sér að fullu að nýta tækifærið og koma hrossum til dóms hið fyrsta. Fyrirsjáanlegt er að álag verður að vanda mikið síðustu vikur dóma og eykst væntanlega enn með tilkomu pestarinnar.


Tuttugu og sjö hross mættu til dóms á Sauðárkróki, um fjörtíu eru skráð á Blönduósi og um áttatíu í Reykjavík þannig að greinilegt er að enn eru einhver hross heilbrigð. Næstu sýningar eru síðan í Eyjafirði og Hafnarfirði. 


Ákveðið hefur verið að öllum hrossum sem sýna sjúkdómseinkenni pestarinnar verði umsvifalaust vísað frá sýningunum. Enda um ótvírætt dýraverndunarmál að ræða að aðeins sé komið til dóms með hross í góðu heilbrigðis ástandi. 


Guðlaugur V. Antonsson,
hrossaræktarráðunautur BÍ


back to top