Tilkynning frá Skeljungi vegna kadmíum-málsins
Skeljungur sem flytur inn áburð frá Carrs í Bretlandi og selur undir vörumerkinu Sprettur hér á landi hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna frétta af of háu kadmíum-innhaldi áburðarins og viðbragða Matvælastofnunar (MAST). Margir hafa gagnrýnt vinnubrögð MAST í málinu, meðal annars Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtakanna sem segir bæði seljendur og kaupendur áburðarins treysta á eftirlit Matvælastofnunar en þessi vinnubrögð skapi vantraust á eftirlitskerfið. Nokkuð ljóst er að Matvælastofnun hefur beðið mikinn álitshnekki vegna málsins.
Tilkynning Skeljungs fer hér á eftir:
„Skeljungur hefur brugðist við upplýsingum um að kadmíum-magn hafi verið yfir viðmiðunarmörkum í áburði frá síðasta sumri og hefur fyrirtækið verið fullvissað um það af birgja sínum í Bretlandi að þetta muni ekki endurtaka sig. Engar takmarkanir gilda í Evrópusambandinu um kadmíum-innihald í áburði. Örfá lönd hafa gengið lengra og sett viðmiðunarmörk sem miðast við 50 mg Cd/ kg P, en Ísland er eitt þeirra. Skeljungur leggur áherslu á að uppfylla öll skilyrði íslenskra reglugerða um áburðaframleiðslu og lítur málið alvarlegum augum. Það skal þó tekið fram að magn kadmíums í áburði frá Skeljungi hefur mörg undanfarin ár verið langt fyrir neðan áðurnefnd viðmiðunarmörk eða sem nemur 1,0 – 5,0 mg Cd/ kg P.
Breski áburðarframleiðandinn Carrs, sem framleiðir áburðinn fyrir Skeljung, hefur leitað skýringa á málinu hjá birgjum sínum og í ljós kom að fosfórbirgir Carrs hafði aflað fosfórs frá nýju svæði og reyndist hann kadmíumríkari en sá fosfór sem áður hafði verið notaður. Carrs hefur fullvissað Skeljung um að kadmíuminnihald fosfórs í áburðarframleiðslu fyrirtækisins muni í framtíðinni vera undir vikmörkum sem gilda hér á landi (50 mg Cd/ kg P). Hefur Skeljungur enn fremur gert þá kröfu að kadmíuminnihald áburðarins liggi eftirleiðis fyrir áður en innflutningur hefst.
Það skal tekið fram að um leið og fullbúin eftirlitsskýrsla MAST lá fyrir í desember síðastliðnum þá sendi Skeljungur bréf til bænda og allra þeirra sem keypt höfðu umræddan áburð og upplýsti þá um málið. „