Tillögur frá Aðalfundi BSSL
Meðfylgjandi tillögur komu fram á aðalfundi Búnaðarsambands Suðurlands en auk þessarar tillagna var samþykkt tillaga um fæðuöryggi sem áður er búið að birta á heimasíðu BSSL.
Tillaga nr.1 – frá fjárhagsnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn er að Hótel Dyrhólaey 8. mars 2022 samþykkir að árgjald til Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2022 verði kr. 6.000 á hvern félagsmann. Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða án umræðu.
Tillaga nr. 2 – frá fjárhagsnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn er að Hótel Dyrhólaey 8. mars 2022 samþykkir að þóknun aðalfundarfulltrúa miðist við sem svarar einföldum dagpeningum ríkisstarfsmanna þ.e. kr.13.000. Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða án umræðu.
Tillaga nr. 3 – frá fjárhagsnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn er að Hótel Dyrhólaey 8. mars 2022 samþykkir að laun stjórnarmanna verði kr. 10.000 fyrir hvern stjórnarfund auk dagpeninga samkvæmt ríkistaxta og aksturs kr. 80 pr.km. Formaður fái tvöföld laun og dagpeninga á við aðra stjórnarmenn auk aksturs kr. 80 pr.km. Formaður fái að auki eingreiðslu sem nemur kr. 300.000 á ári.
Pétur Guðmundsson, Hvammi ræddi um hvort eingreiðslan væri of lág, miðað við þá vinnu sem formaður legði til. Ekki kom þó nein breytingartillaga svo tillagan borin upp og samþykkt samhljóða.
Tillaga nr. 4 – frá fjárhagsnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn er að Hótel Dyrhólaey 8. mars 2022 samþykkir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2022. Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða án umræðu.
Tillaga nr. 5 – frá allsherjarnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey þann 8.3. 2022 skorar á stjórn Búnaðarsamband Suðurlands að hafa milligöngu um að bjóða nemendum á háskólastigi LbhÍ að nota aðstöðu og þekkingu sem til staðar er á Stóra-Ármóti fyrir sín verkefni.
Greinargerð:
Þegar nemendur velja verkefni á háskólastigi fá þeir hugmyndir m.a. úr nærsamfélagi skólans t.d. frá kennurum. Með íhlutun frá rannsóknarstöð eins og Stóra-Ármót mætti leggja inn þarfagreiningu fyrir búgreinar sem hægt er að stunda og rannsaka á stöðinni. Slík greining gæti gefið nemendum nýjar hugmyndir. Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða.
Tillaga nr. 6 – frá allsherjarnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey þann 8.3. 2022 skorar á stjórn Búnaðarsambands Suðurlands að leita áfram allra leiða til að efla rannsóknir og nýsköpun á Suðurlandi og nýta til þess t.d. hagnað af hlunnindum á Stóra-Ármóti.
Tillagan borin upp og samþykkt með þorra atkvæða og einn á móti.
Tillaga nr. 7 – frá allsherjarnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey þann 8.3. 2022 skorar á stjórn Búnaðarsambands Suðurlands að efla áhuga fólks í bændastétt á félagsstörfum fyrir bændur. Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða.
Umræður um tillögur nr. 5, 6 og 7 voru nokkrar og mikill hugur í fólki að efla rannsóknir og nýsköpun sem og efla áhuga fólks á félagsstörfum.
Tillaga nr. 8 – frá allsherjarnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey þann 8.3. 2022 skorar á ríkisstjórn í samráði við BÍ að hraða gerð Fæðuöryggisstefnu fyrir Ísland með sérstakri áherslu á áhættu vegna átaka sem nú ríkja í Evrópu. Í framhaldi verði strax sett upp aðgerðaráætlun sem taki til aukinnar framleiðslu og sjálfbærni íslenskrar matvælaframleiðslu og aðfanga vegna hennar. Jafnframt verði tryggt fjármagn til rannsókna og innviðauppbyggingar vegna þessa. Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða, þegar búið var að ræða mikilvægi hennar og örlitlar breytingar gerðar á tillögunni.
Tillaga nr. 9 – frá Búnaðarfélagi Hraungerðishrepps
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Hótel Dyrhólaey þann 8.3. 2022 skorar á stjórn Búnaðarsamband Suðurlands að stofna Vísinda- og rannsóknarsjóð. Í hann renni hlunnindatekjur Stóra-Ármóts.
Tilgangur sjóðsins er að efla rannsóknir og visindalegt starf á Stóra-Ármóti og eftir atvikum á starfssvæði BSSL öllu.
Borin var upp frávísunartillaga sem var samþykkt af 17 greiddum atkvæðum og 3 á móti.