Tjón hjá MS á Selfossi
Tjón varð í MS á Selfossi þegar rafmagn sló út í um fimm mínútur í morgun. Um 6.000 lítrar af mjólk fóru í súginn þegar vélbúnaður varð rafmagnslaus. Guðmundur Geir Gunnarsson mjólkurbússtjóri segir tjónið nema mörg hundruð þúsundum króna.
„Þegar þetta gerist þá slá öll tæki og tól út. Dælur hætta að virka og annað, og það er mjólk í öllum lögnum. Við missum hér um 6.000 lítra af mjólk víðsvegar um í búinu,“ segir Guðmundur Geir í samtali við mbl.is.
Nú verður að þrífa allan búnað og lagnir í mjólkurbúinu, sem þýðir um þriggja til fjögurra tíma seinkun að sögn mjólkurbússtjórans. „Þetta hleypur ekki á milljónum en þetta hleypur á hundruðum þúsunda þegar svona gerist. Fyrir utan að vinnudagurinn lengist um fjóra tíma hjá 12-15 manns,“ segir hann.
Guðmundur Geir bendir jafnframt á að allur vél- og tækjabúnaður verði fyrir miklu álagi þegar svona gerist. „Alls konar rafmagnsbúnaður að sýna veikleikamerki eftir svona. Það hefur verið erfitt að koma dælum af stað og öryggisrofar hafa farið víðsvegar um húsið. Það bætist alltaf ofan á þetta,“ segir hann.
Aðspurður segir Guðmundur Geir að engin varaaflsstöð sé í mjólkurbúinu. „Hún yrði að vera svo gríðarlega öflug til að taka við þessu höggi sem kæmi. Það er yfirleitt alltaf slegið út af borðinu,“ segir hann.
Rafmagnslaust varð kl. 8:18 þegar grafa í nágrenninu rakst upp í háspennustreng við Ljósafossvirkjun.