Töluvert tjón á ökrum undir Eyjafjöllum í hvassviðri
Útlit er fyrir að töluvert tjón hafi orðið á kornökrum undir Eyjafjöllum í hvassviðrinu í gærdag. Þannig virðast 33 ha. korns í Nýjabæ undir V-Eyjafjöllum vera ónýtir að 2/3 hlutum vegna foks og allt virðist hafa fokið úr 5,4 ha. af rýgresi. Korninu var sáð 4. og 5. maí s.l. og rýgresinu þann 6. maí s.l.
Auk þessa er mikið áfok sands á ræktuð tún og 5-6 ha. verulega sandmenguð sem væntanlega kemur til með að hafa áhrif á uppskeru þeirra í sumar. Svipað er ástatt um fleiri bændur undir V-Eyjafjöllum þó tjónið hafi kannski orðið sýnu mest í Nýjabæ. Að sögn þeirra Ólafs og Sigurlaugar í Nýjabæ hvessti um tíuleytið í gærmorgun og fór ekki að lægja að ráði fyrr en seinnipartinn.
Á sjálfvirkum veðurmæli Vegagerðinnar við Hvamm fór vindhraði upp undir 40 m/s í hviðum og 35 m/s á sams konar mæli á Steinum.