Tveir bændur sæmdir fálkaorðunni
Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, sæmdi í gær tíu Íslendinga fálkaorðunni við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Af þessum tíu eru tveir starfandi bændur, þar af annar sunnlenskur, en það er Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum. Hann hlaut riddarakross fyrir nýjungar í landbúnaði. Þá hlaut Guðrún Jónsdóttir bóndi á Arnbjargarlæk í Þverárhlíð í Borgarbyggð riddarakross fyrir störf á vettvangi félags- og velferðarmála. A.m.k. einn annar orðuhafi ætti að vera bændum að góðu kunnur en það er Páll Bergþórsson, fv. veðurstofustjóri sem hlaut riddarakross fyrir rannsóknir á veðurfari og sögu þess.
Fálkaorðuhafar þann 17. júní 2009 eru:
- Árný J. Guðjohnsen ritari, Reykjavík, riddarakross fyrir störf að félags- og mannúðarmálum.
- Björn Jónsson fyrrverandi skólastjóri, Seltjarnarnesi, riddarakross fyrir framlag til uppeldismála, menningar og skógræktar.
- Böðvar Guðmundsson rithöfundur, Danmörku, riddarakross fyrir framlag til íslenskrar menningar og bókmennta.
- Guðrún Jónsdóttir bóndi, Arnbjargarlæk, riddarakross fyrir störf á vettvangi félags- og velferðarmála.
- Hafsteinn Þorvaldsson fyrrverandi formaður UMFÍ, Selfossi, riddarakross fyrir framlag til félags- og íþróttamála.
- Helga Jónsdóttir bæjarstýra, Fjarðabyggð, riddarakross fyrir framlag til opinberrar stjórnsýslu.
- Hólmfríður Árnadóttir fyrrverandi prófessor, Reykjavík, riddarakross fyrir framlag til listgreinakennslu í íslensku skólakerfi.
- Ólafur Eggertsson bóndi, Þorvaldseyri, riddarakross fyrir nýjungar í landbúnaði.
- Pálína Ása Ásgeirsdóttir hjúkrunarfræðingur, Sviss, riddarakross fyrir framlag til alþjóðlegs hjálparstarfs.
- Páll Bergþórsson fyrrverandi veðurstofustjóri, Reykjavík, riddarakross fyrir rannsóknir á veðurfari og sögu þess.
Búnaðarsamband Suðurlands óskar Ólafi Eggertssyni og öðrum fálkaorðuhöfum til hamingju með þessa sæmd.