Um 30 bændur fóru í sauðfjárræktarferð
Sunnudaginn 13. apríl síðast liðinn fóru bændur undan Eyjafjöllum og úr Fljótshlíð í sauðfjárræktarferð í Borgarfjörð og vestur í fyrrum Kobeinsstaðahrepp. Í hópnum voru 30 bændur sem halda sauðfé. Fyrsti var komið við á Hesti, tilraunabúi Landbúnaðarháskóla Íslands í sauðfjárrækt. Það er alltaf gaman að koma að Hesti og sjá fallegt fé og góða ræktun. Þar voru líka tvær tilraunir í gangi sem hópurinn skoðaði. Næst var komið við hjá Sindra og fjölskyldu í Bakkakoti. Þar var vel tekið á móti hópnum með góðum veitingum og fræðslu um búið. Öllu fé er gefið í gjafagrindur og hinar ýmsu tæknilausnir notaðar til að létta bændum störfin. Tengdaforeldrar Sindra og mágkonur áttu veg og vanda að heimsókninni þar sem Sindri og fjölskylda voru nýkomin heim frá Kanada þar sem Sindri var í námi.
Síðasti bærinn í þessari ferð voru Ystu-Garðar í Borgarbyggð (Kolbeinsstaðahreppi). Þar fékk hópurinn góðar móttökur hjá hjónunum Þóru Sif og Andrési. Í Ystu-Görðum eru ný fjárhús með gjafagrindum sem rúma um 900 fjár. Féð er á taði og er breiður fóðurgangur eftir miðju hússins. Gaman var að sjá hve mikill litafjölbreytileiki er í fénu í Ystu-Görðum. Að lokum snæddi hópurinn ljúfengan kvöldverð í Landnámssetrinu í Borgarnesi ásamt því að fá fræðslu um staðinn.
Meðfylgjandi mynd er tekin í Bakkakoti.