Undirbúningur að útgáfu hrútaskráarinnar í fullum gangi
Nú líður óðfluga að útgáfu nýrrar hrútaskrár en fyrirhugað er að hún komi út um miðjan nóvember n.k. Í dag voru þeir hrútar sem koma nýir til notkunar í vetur skoðaðir og samdar um þá lýsingar til birtingar í skránni. Auk þess voru þeir myndaðir. Að venju komu Jón Viðar Jónmundsson, Lárus G. Birgisson og Emma Eyþórsdóttir í Þorleifskot til þessara starfa.
Auk þeirra voru svo heimamennirnir Sveinn Sigurmundsson, Halla Eygló Sveinsdóttir, Óðinn Örn Jóhannsson og Guðmundur Jóhannesson á staðnum við myndatöku og önnur störf. Segja má að þetta sé avallt nokkur hátíðisdagur þegar þessi nýju garpar eru skoðaðir í krók og kima enda afbragðs vel gerðar úrvalskindur á ferð.
Að loknu mati og myndatöku var síðan tekið til við rúning á hrútunum en þeirra fyrsta verkefni á nýjum stað verður svo sæðistaka til frystingar sem hefst um miðjan nóvember.
Alls koma 21 nýir hrútar til notkunar í vetur, 8 kollóttir, 12 hyrndir og 1 forystuhrútur. Allar lýsingar og umsagnir um þá bíða hrútaskráarinnar. Eftir er að taka endanlega ákvörðun um hverjir þeirra hrúta sem í notkun voru í fyrra verða áfram í notkun en tölur haustsins eru að koma í hús þessa dagana. Þá verður ákveðið í næstu viku hvernig skipting hrútanna milli stöðvanna verður.