Hæfileg sáðdýpt og rétt jarðvinnsla
Til að grastegundirnar sem sáð er til nái sér vel á strik er lykilatriði að svarðarmyndun gangi vel. Jarðvinnslan, sáningin og umhirða nýræktarinnar eftir sáningu skipta þar höfuðmáli.
Mikilvægt er að hafa í huga að illgresi spírar á sama tíma og ræktunarplantan og margar illgresistegundir spíra hratt ef næg úrkoma er, s.s. haugarfi. Til að gefa illgresinu ekki óþarfa forskot er mikilvægt að sem stærsti hluti jarðvinnslunnar sé unnin í einni lotu, þ.e. fínvinnslan (herfing/tæting), áburðargjöf, sáning og völtun.
Grastegundir sem notaðar eru í túnum hér á landi eiga það flestar sameiginlegt að svarðarmyndunin gengur hægt og samkeppnisþróttur er lítill fyrsta sumarið. Nægilegt sáðmagn er mikilvægt atriði ef halda á illgresi í skefjum. Einnig er mikilvægt að sá fræi grunnt þannig að það spíri sem hraðast. Ef fræi er sáð of djúpt spírar það seint upp á yfirborð og mikil orka fer í spírun áður en plantan fer að ljóstillífa. Af þeim sökum er líklegt að of djúp sáning leiði til þess að plönturnar verði veikar fyrir fyrstu dagana þótt þær nái upp á yfirborðið.
Raðsáning á grasfræi er æskileg ekki síst vegna þess að það auðveldar fræinu að ná í raka og flýtir þar með spírun. Raðsáningarvélar eru flestar útbúnar greiðu sem rakar jarðveginum yfir fræið þegar sáð er. Af fyrrgreindum ástæðum er mikilvægt að greiðan setji fræið ekki á of mikið dýpi. Alla jafna gildir að eftir því sem fræið er smærra er æskilegra að fræið fari grynnra ofan í jörðina. Grasfræ ætti því ekki að fara á meira dýpi en 1-1,5 cm. Ef ekki er hægt að stilla af hve miklum þunga greiðan á sáningarvélinni hvílir á jörðinni getur reynst heillavænlegt að valta akurinn með hóflega þungum valta í mjög myldum og/eða lausum jarðveg fyrir sáninguna.
Eftir að sáningu líkur er mjög mikilvægt að valta yfir akurinn. Flagvalti (Cambridge valtari) er heppilegri til völtunar fremur en vatnsfylltur tunnuvaltari fyrir þær sakir að hann skilur eftir sig hrjúfara yfirborð sem þornar ekki eins fljótt og rennislétt yfirborðið sem tunnuvaltarinn skilur eftir sig. Völtunin þjappar jarðveginum að fræinu og auðveldar því að ná í vatn sem er grundvöllur þess að fræið nái að spíra. Völtunin kemur einnig á betra sambandi milli efsta jarðvegslagsins sem unnið hefur verið í og neðri jarðvegslaga sem er grundvöllur þess að hárpípukraftur jarðvegsins virki og að raki úr neðri jarðvegslögum berist upp að yfirborðinu. Þessi raki getur reynst ungplöntunum dýrmætur í þurrkatíð og skilið á milli lífs og dauða.
Heimildir:
Jón Guðmundsson, 1998. Baráttan við illgresið, illgresiseyðar og notkun þeirra. Ráðunautafundur 1998: 109-123.