Vallarrýgresi
VALLARRÝGRESI (Lolium perenne L.)
Þessi grastegund er einnig nefnd fjölært rýgresi eða enskt rýgresi en nafnið fjölært rýgresi hefur fest sig í sessi hér á landi til aðgreiningar frá einæra rýgresinu (Lolium multiflorum) sem flestir bændur þekkja. Í raun er nafnið fjölært rýgresi ekki lýsandi, nær væri að nefna það skammært rýgresi þar sem vart er hægt að ætlast til að það lifi í mörg ár við hérlendar aðstæður. Vallarrýgresi er þó réttasta og best lýsandi nafnið sem við ættum að tileinka okkur.
Vallarrýgresi er afar gott fóðurgras og stafa vinsældir þess einkum af því að saman fara mikil vaxtargeta og orkuríkt fóður. Vallarrýgresi er líkt einæra rýgresinu, þó er það heldur fíngerðara og er það jafnvel talið bragðbetra og næringarríkara en vallarfoxgras.
Með þessari fóðurjurt má fá gott gras til sláttar og beitar allan vaxtartímann. Það þolir beit og tíðan slátt vel en náttúrleg ending þess og vetrarþol er því miður fremur lítið. Af þeim sökum hefur það lítið verið ræktað hér á landi. Með aukinni kornrækt og tíðari endurvinnslu eru viðhorf manna að breytast og áhugi á að nota vallarrýgresi hefur farið vaxandi allra síðustu ár.
Sáðbeð og sáðmagn
Vallarrýgresi hefur beðið hnekki í íslenskri vetrarveðráttu og til þess að það eigi möguleika verður að velja því stað af mikilli kostgæfni. Það hefur sýnt sig að ekki þýðir neitt að sá því þar sem jörð verður blaut að hausti eða vetri og gerir því kröfu um góða framræslu. Það þolir einnig illa harða frostakafla á auða jörð, einkum ef á undan hafa farið hlýindi og rýgresið er grænt.
Vallarrýgresi er upphaflega tvílitna (2n) en á seinni árum hefur fjölgað ferlitna yrkjum (4n). Ferlitna rýgresi gefur betra fóður en tvílitna rýgresi er þolnara og gefur sterkari svörð. Erlendis er því algengt að rækta blöndu ferlitna og tvílitna rýgresis. Fræið er aðeins minna en hjá einæru rýgresi sem hér er notað í grænfóður en mun stærra en hjá vallarfoxgrasi eða vallarsveifgrasi.
Yrki sem hafa verið notuð hér á landi meðal bænda:
- Baristra (4n). Hollenskt yrki sem verið hefur í tilraunum hér á landi undanfarin ár. Það er uppskerumikið en vetrarþol mætti vera betra.
- Svea (2n). Það var ófáanlegt vorið 2003.
Fræ af ferlitna rýgresisyrkjum er helmingi stærra en hjá tvílitna yrkjum. Fræþungi tvílitna yrkja er 1,9 mg.Hæfilegt sáðmagn af ferlitna yrki eins og Baristra er talið vera um 35 kg/ha í hreinrækt. Ef vel tekst til með sáninguna og aðstæður eru góðar gefur rýgresið mjög þéttan og jafnan svörð, það er fljótt til og er því öflugt í samkeppni við annan gróður.
Vetarþol
Áföll af hörðum vetri koma allt öðru vísi fram á vallarrýgresi en öðrum fjölærum grastegundum. Það grisjast og oft mun vera um kal af völdum frosts eða vetrarkulda að ræða fremur en svellkal. Þó ekki hafi fengist mikil reynsla á hvernig rýgresið bregst við svellkali skyldi þó varast að velja því stað þar sem vitað er að svellkal er algengt í lægðum og lautum.
Það sem er sérstakt við vallarrýgresið er að það getur virst líflítið að vori, en sé eitthvert líf að sjá er nokkuð öruggt að það kemur til þótt það spretti þá seinna en annað tún. Líklega er átt við þetta þegar talað er um að vallarrýgresi sé þolið gras, það hefur mikla getu til að ná sér aftur þótt nærri því sé gengið. Því skyldi varast að dæma það of snemma úr leik að vori þó svo virðist sem það sé illa farið af kali. Vallarrýgresi sem kemur óskemmt undan vetri er hins vegar fljótt til árið eftir sáningu, mun fyrr en önnur fjölær grös sem við ræktum.
Nýting vallarrýgresis
Vallarrýgresi á ekki að nýta eins og vallarfoxgras. Það getur verið hentugt að sá því með byggi, en þá gefur það ekki nytjar sáðárið og komi það grænt undan vetri getur meltanleiki verið lítill fram eftir vori, líkt og um síðslægju væri að ræða. Sáð einu sér getur það gefið eina góða uppskeru sáðárið og er þá betra að slá fremur snemma til að svörðurinn nái að þétta sig betur áður en farið er í vetur. Ef veturinn verður því ekki mjög erfiður mun vallarrýgresi verða á undan öðru grasi um vorið. Þá þarf að slá snemma og bera á eftir slátt, oftast ætti að þríslá fyrsta árið eða slá og beita allt að fjórum sinnum. Vallarrýgresi getur náð mikilli sprettu að vorinu áður en það skríður án þess að tapa fóðurgildi og því má taka mikla uppskeru í 1. sl. þegar vel gengur, en erfitt getur þá orðið að verka það svo vel sem skyldi vegna miklis vatnsmagns. Af þeim sökum leggja Hollendingar mikla áherslu á að láta það ekki spretta mikið en slá það oftar fyrir vikið.
Vallarrýgresi vex þétt og því sennilega ekki mikið meira en 20 sm á hæð þegar heppilegt er að slá það. Má þá búast við að uppskeran sé um 20–30 hkg/ha í hverjum slætti og meltanleikinn 75-80%. Fyrsta slátt má þó draga lengur ef rýgresið er ekki skriðið og í tilraunum hafa fengist um 50 hkg/ha um miðjan júní þegar best lætur. Önnur viðmiðun um heppilegan sláttutíma gæti verið að ekki skuli líða meira en 30–40 dagar milli slátta og ætti þá að nást uppskera þrisvar sinnum á sumri ef fyrsti sláttur er í júní. Hafa má í huga að það er talið draga úr endurvexti ef vallarrýgresi er mikið sprottið þegar það er slegið auk þess sem hlutur stöngla eykst þegar rýgresið skríður og meltanleikinn fellur mun örar en hjá öðrum túngrösum. Vegna vatnsmagns rýgresisins og þéttleika er vallarþurrkun þess líka erfiðari en á vallarfoxgrasi þar sem loftun um rýgresið er minni, því minni eftir því sem uppskeran er meiri.
Þar sem ekki er fyrirfram hægt að búast við langri endingu vallarrýgresis er talið skynsamlegra að reyna að nýta það mikið þau sumur sem það lifir þar sem það virðist þola vel harða nýtingu að sumri. Í tilraunum með síðasta sláttutíma kom ekki fram verulegur munur á vetrarþoli plöntunnar en það kom fram, líkt og algengast er hjá öðru grasi, að ef maður nýtir vel síðustu stráin sprettur að sama skapi minna árið eftir.
Reynsla bænda
Góð reynsla af tilraunum varð til þess að nokkrir bændur sóttust eftir að prófa að sá vallarrýgresi og var níu bændum gefinn kostur á að komast inn í fræpöntun RALA veturinn 1997-1998. Bændurnir sáðu fyrst sumarið 1998 og fengu a.m.k. sumir þeirra ágæta uppskeru þegar á fyrsta ári. Veturinn 1998-1999 var nokkuð harður og kom þá vel í ljós hvar vallarrýgresið á erfitt uppdráttar. Af stöðunum níu lifði rýgresið vel eða ágætlega á 5 stöðum, að hluta til á 2 og illa eða ekki á 3 stöðum. Þeir staðir sem rýgresið lifði veturinn af voru Selpartur í Gaulverjabæjarhreppi, Stóra-Hildisey í A.- Landeyjum, Steinsholt í Gnúpverjahreppi, Stóru-Akrar í Blönduhlíð, Skagafirði og á Tilraunastöðinni á Korpu. Á Þorvaldseyri og á Stóra-Ármóti lifði það að verulegu leyti en á Tannstaðabakka í Hrútafirði, Efra-Ási í Hjaltadal og á Tilraunastöðinni að Möðruvöllum í Hörgárdal lifði það illa eða ekki. Sennilega áttu þessir staðir það sameiginlegt að sáð var í land sem blotnar um of að vetrinum og því ekki fullreynt hvort það hefði ekki náð að lifa á þessum stöðum ef sáð hefði verið í heppilegra land.
Vorið 2000 var töluvert af fjölæru rýgresisfræi flutt inn eða sem svaraði til sáningar í um hundrað hektara. Minna var sáð af því þá en búist hafði verið við. Síðustu ár hafa verið flutt inn um 2,0 tonn af fræi árlega sem svara þá til sáningar í um 60-70 hektara lands.
Að lokum
Af þeirri reynslu sem þegar hefur fengist má álykta að þolnum rýgresisyrkjum megi sá með ágætum árangri þar sem jarðvegsskilyrði eru góð og ekki er að vænta harðra frosta á auða jörð. Sennilega hentar það síður á mýrarjörð, en það sem skiptir máli er að framræsla sé góð og jarðvegur verði ekki mjög blautur að hausti og/eða vetri. Ef þessum frumskilyrðum er fullnægt ætti rýgresi að skila góðri og mikilli uppskeru á fyrsta ári, oftast á undan öðru túni og verulegar líkur eru á að það geti gefið góðar nytjar í eitt eða fleiri sumur.
Áfram mun verða fylgst vel með þreifingum bænda í ræktun á vallarrýgresi næstu ár og þeirri reynslu safnað saman. Í Noregi er verið að prófa ný yrki og gefa þær kynbætur fyrirheit um betri tíð. Ekkert fræ af þeim stofnum er þó komið á almennan markað enn. Þau yrki eiga að vera nokkuð vetrarþolnara en t.d. Baristra, henta þar af leiðandi betur íslenskum aðstæðum og vera afar gott fóðurgras. Ljóst er að ef/þegar tekst að þróa yrki vallarrýgresis með meira vetarþoli mun það hafa mikla þýðingu á grasræktarlandinu Íslandi. Þróun og prófanir á nýjum yrkjum taka þó mikinn tíma og íslenskir bændur verða því að sýna rannsóknafólki þolinmæði.
Heimildir:
Ráðunautafundur 2000 (bls. 298-314) Hólmgeir Björnsson
Freyr, 6.tbl.2000 (bls. 8-10) Hólmgeir Björnsson
Munnlegar upplýsingar frá bændum
Samantekt: Jóhannes Hr. Símonarson